Erlent

HIV-smitaður í 17 ár

Fyrrverandi menningarmálaráðherra í stjórn Tonys Blair, Chris Smith, upplýsti í samtali við Sunday Times í gær að hann hefði verið HIV-smitaður í 17 ár. Smith, sem er 53 ára, sagðist ekki hafa greint Blair frá þessu árið 1997 þegar hann varð fyrsti ráðherrann í Bretlandi til að opinbera samkynhneigð sína. "Síðustu vikur og mánuði hefur mér fundist að mér bæri skylda til að segja frá þessu, ekki síst eftir að Nelson Mandela tilkynnti að sonur hans hefði látist úr eyðni. Ég vonast líka til að opinber umræða slái á fordómana." Smith sagðist vilja undirstrika að HIV-smitaðir gætu lifað eðlilegu lífi þrátt fyrir að þurfa að taka inn mikið magn af lyfjum. "HIV-smitaðir geta átt gott líf," sagði Smith.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×