Erlent

Stjórnarskrárbrot í Guantanamo

Þeir fangar í Guantanamo sem þess óska geta kært vist sína þar til almennra dómstóla í Bandaríkjunum. Þannig hljóðar úrskurður bandarísks alríkisdómara sem kvað upp úr um lögmæti þess að stjórnvöld halda föngum sem tengjast al-Kaída og Talibönum án dóms og laga í herstöð á Guantanamo á Kúbu. Joyce Hens Green dómari gagnrýndi Bandaríkjastjórn fyrir að neita föngunum um að nýta sér lagaleg réttindi sín. Hún sagði að hæstiréttur Bandaríkjanna hefði kveðið skýrt upp úr með það í fyrra að fangarnir ættu rétt á að dómstólar tækju mál þeirra fyrir. Bandaríkjastjórn brást hins vegar við með því að setja upp sérstaka herdómstóla til að kveða upp úr um hvort fangarnir væru erlendir vígamenn. Þetta sagði Green brjóta gegn stjórnarskránni, sérstaklega þar sem fangarnir nytu ekki lögfræðiráðgjafar og fengju ekki að vita um sum þeirra sönnunargagna sem eru notuð gegn þeim. Niðurstaða Green er í andstöðu við niðurstöðu annars alríkisdómara sem komst fyrir skömmu að þeirri niðurstöðu að herdómstólarnir stríddu ekki gegn stjórnarskránni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×