Erlent

Staða súnnía dregur úr bjartsýni

"Hryðjuverkamennirnir vita nú að þeir geta ekki sigrað," sagði Iyad Allawi, forsætisráðherra írösku bráðabirgðastjórnarinnar, þegar hann fagnaði kosningunum til írasks stjórnlagaþings og hvatti landsmenn til að sameinast um uppbyggingu landsins. Þrátt fyrir bjartsýni Allawi urðu margir til að lýsa áhyggjum. Þjóðarleiðtogar heims fögnuðu kosningunum í gær en lýstu margir hverjir áhyggjum af því hversu lítil kjörsókn súnní-múslima var. Engar tölur liggja enn fyrir um kjörsókn þeirra en ljóst er að hún var lítil. Starfsmenn yfirkjörstjórnar sögðu kosningaþátttöku súnní-múslima hafa verið litla en meiri en búist hefði verið við. Abdúllah Jórdaníukonungur syrgði það hins vegar í viðtali að þátttaka þeirra hefði verið minni en vonast hefði verið til og embættismaður í bandaríska sendiráðinu lýsti áhyggjum af því að kjörsókn súnnía hefði verið það lítil að hætta væri á að kosningarnar skorti lögmæti í augum þeirra. Súnní-múslimar sátu heima hvort tveggja vegna þess að trúarleiðtogar þeirra hvöttu þá til að hunsa kosningarnar og eins vegna ótta við hryðjuverkaárásir. Stjórnlagaþingið sem kosið var um á sunnudag á að setja Írak þær reglur og skipulag sem því verður stjórnað eftir í framtíðinni. Vegna lítillar kosningaþátttöku súnnía hafa þeir minni áhrif á stjórnlagaþinginu en ella nema fundin verði leið til að tryggja þeim aðkomu þrátt fyrir litla kosningaþátttöku. Ekki er hægt að gera fulla grein fyrir því hvað varð um fjárframlög til íraskra ráðuneyta að andvirði 550 milljarða króna. Frá þessu greindi bandarísk eftirlitsstofnun. Bandaríska hernámsstjórnin reiddi féð af hendi til íraskra ráðuneyta en engar eftirlitsstofnanir voru til staðar til að fylgjast með því hvað varð um féð. Al-Jazeera sjónvarpsstöðin sýndi í gær myndband sem íraskir vígamenn sögðu sýna hvar bresk herflutningaflugvél var skotin niður á sunnudag. Tíu létust þegar flugvélin fórst en ekki hefur verið staðfest hvort hún hrapaði eða var skotin niður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×