Erlent

Ísraelar taka jarðir eignarnámi

Ísraelsk stjórnvöld hafa ákveðið að taka land palestínskra flóttamanna nærri Jerúsalem eignarnámi án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Ákvörðunin hefur fallið í grýttan jarðveg; ríkissaksóknari Ísraels fyrirskipaði rannsókn á henni og Bandaríkjastjórn hefur hvatt Ísraela til að falla frá áformunum. Ísraelska stjórnin styðst við lög frá árinu 1950. Þau lög voru sett til að heimila ísraelskum stjórnvöldum að taka eignarnámi landsvæði Palestínumanna sem flýðu frá heimilum sínum í kjölfar stríðsins sem braust út þegar Ísraelsríki var stofnað 1948. Síðustu mánuði hafa Ísraelar tekið hundruð ekra lands eignarnámi af Palestínumönnum sem komast ekki lengur til jarða sinna vegna múrsins sem reistur hefur verið og skilur að byggðir Ísraela og Palestínumanna. Bandarískir embættismenn tóku málið upp við ísraelska sendiráðsstarfsmenn í Washington og hvöttu Ísraela til að hætta við áformin. Ríkissaksóknari Ísraels segir að ekki hafi verið ráðgast við embætti sitt um lögmæti aðgerðanna og því verði að skera úr um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×