Fleiri fréttir

VIll að PIP fyllingarnar verði fjarlægðar úr öllum konum

Geir Gunnlaugsson landlæknir telur ráðlegt að PIP brjóstafyllingar verði fjarlægðar úr öllum konum sem þær bera. Þetta er niðurstaða hans eftir að Vísindanefnd Evrópusambandsins um nýjar og vaxandi heilsuvár gaf út skýrslu um PIP púðana í gær. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir mat landlæknis byggt á faglegum forsendum og að velferðarráðuneytið muni bregðast við í samræmi við þær ábendingar sem þar komi fram. Unnið verði að skipulagningu viðbragða og framkvæmd aðgerða á næstu dögum og muni ráðherra taka málið fyrir á fundi ríkisstjórnar næstkomandi þriðjudag.

Orkusalan vefur ársins á SVEF-verðlaununum

Orkusalan.is var rétt í þessu valinn besti íslenski vefurinn á Íslensku vefverðlaunum. Jón Gnarr, borgarstjóri Reykavíkur, afhenti verðlaunin. Samtök vefiðnaðarins standa að verðlaununum og var athöfnin haldin í Tjarnarbíói. Veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi vefi í 11 flokkum. Alls bárust yfir 100 tilnefningar til verðlaunanna og sá dómnefnd um að stilla upp í tilnefningar til verðlaunanna sem félagsmenn kusu síðan um. Þetta er í 11. skipti sem Íslensku vefverðlaunin eru haldin.

Fundu á annað hundrað grömm af kannabisefnum í Herjólfi

Lögreglumenn fundu um 150 - 200 grömm af maríhúana í farangursgeymslu bíls í Herjólfi þegar hann var að fara frá Þorlákshöfn um hálffjögur í dag. Ökumaður bílsins reyndist vera undir áhrifum fíkniefna og að auki hafði hann verið sviptur ökuleyfi. Það var fíkniefnahundurinn Luna sem fann fíkniefnin. Farþegi í bifreiðinni, 22 ára gamall karlmaður og eigandi hennar, viðurkenndi að eiga efnin. Hann sagði þau ætluð til eigin nota.

Hnífamaður í gæsluvarðhald

Héraðsdómur Reykjaness féllst á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni um tvítugt sem er grunaður um að hafa stungið karlmann á fertugsaldrinum í síðuna með hníf. Maðurinn sem var stunginn þurfti að gangast undir aðgerð en hann var hætt kominn. Hann er hinsvegar úr lífshættu núna.

Eldfjall með flestar tilnefningar til Eddunnar

Eldfjall hlaut flestar tilnefningar til Eddunnar í ár eða fjórtán alls. Þá hlaut Á annan veg ellefu tilnefningar. Báðar myndirnar eru meðal annars tilnefndar sem bíómyndir ársins, fyrir leikstjórn, handrit og svo eru aðalleikarar myndanna tilnefndir sem leikarar ársins.

Jafn margir á nagladekkjum og í fyrra

Hlutfall nagladekkja undir bifreiðum er svipað í janúar 2012 og það var á sama tíma í fyrra eða 33 prósent á móti 67 prósent á öðrum dekkjum. Færðin í höfuðborginni reyndist því ekki hvati fyrir ökumenn til að skipta yfir á negld dekk, segir á vef Reykjavíkurborgar. Árið 2009 var hlutfall negldra dekkja í janúar mun hærra eða 41% og árið 2008 var það 41,8% í janúar. Áfram má því gera ráð fyrir að nagladekkjum fækki á götum borgarinnar en þau skapa loft- og hljóðmengun í borginni.

Einn ölvaður og tveir dópaðir undir stýri

Tæplega 70 ökumenn voru stöðvaðir í miðborginni í gærkvöld og nótt í umferðareftirliti lögreglunnar. Einn þeirra, karl á fimmtugsaldri, reyndist ölvaður við stýrið. Á sama tímabili voru tveir aðrir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fertugsaldri, teknir við akstur annars staðar í borginni en þeir voru báðir undir áhrifum fíkniefna. Þá var 18 ára pilti gert að hætta akstri í Árbæ síðdegis í gær en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Tæplega 800 hvítir Kangoo í umferð

Alls eru 759 hvítir Renault Kangoo bílar skráðir hjá Umferðarstofu en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti á dögunum eftir karlmanni og hvítri sendibifreið af gerðinni Kangoo í tengslum við rannsókn á sprengjunni sem fannst á Hverfsigötu á þriðjudagsmorgun.

Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir Sævari Sverrissyni, karlmanni á sextugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir að hafa staðið að innflutningi á miklu magni af sterum og fíkniefnum til landsins. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. febrúar næstkomandi, eða þar til dómur fellur í máli hans. Sævar hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 11. október á síðasta ári

Kærleikar í miðborginni á morgun

Það er langur laugardagur í miðbæ Reykjavíkur á morgun eins og alla fyrstu laugardaga hvers mánaðar. Þá eru verslanir opnar lengur en ella og ýmsir viðburðir í boði. Á morgun verður ölli tjaldað til þefar "Kærleikar í miðborginni“ fara fram.

Stjórnvöld fara yfir skýrslu um PIP brjóstafyllingar

Íslensk heilbrigðisyfirvöld fjalla nú um niðurstöður sérfræðinganefndar um PIP brjóstafyllingar til að meta hvort þær gefi tilefni til endurskoðunar á aðgerðum stjórnvalda sem kynntar voru 10. janúar síðastliðinn.

Skutu þrjá mótmælendur til bana í Egyptalandi

Egypska lögreglan skaut þrjá til bana í mótmælum sem haldin voru víðsvegar um Egyptaland í gær og nótt í kjölfar afdrifaríks fótboltaleiks þar í landi. Fjöldi liggur særður eftir átök við lögreglu.

Fundu kannabisplöntur á eyðibýli

Lögreglan á Blönduósi, ásamt lögreglunni á Akureyri, fundu 34 kannabisplöntur á eyðibýli á Skaga síðasta þriðjudag.

Maðurinn úr lífshættu

Karlmaður um fertugt, sem stunginn var nokkrum djúpum stungum í kvið og síðu í nótt er úr lífshættu eftir aðgerð á Landsspítalanum og liggur nú á gjörgæsludeild.

Vilja lækka vaskinn á barnaföt

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á þingi frumvarp til laga sem myndi lækka virðisaukaskatt á barnafötum og öðrum nauðsynjavörum tengdum barnauppeldi úr 25,5 prósentum í sjö prósent. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þegar til lengri tíma sé litið beri að stefna almennt að lækkun virðisaukaskatt þá komi núverandi aðstæður í ríkisbúskapnum í veg fyrir að því markmiði verði náð á kjörtímabilinu.

Harður árekstur á Breiðholtsbraut

Ökumaður smábíls slapp lítið meiddur eftir að hafa lent í hörðum árekstir við jeppa á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Stekkjabakka rétt fyrir miðnætti.

Vill auka öryggi í smábátum

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur Ögmund Jónasson innanríkisráðherra til þess að lögleiða björgunarflotbúninga um borð í öllum skipum. Í dag er bátum undir tólf metrum ekki gert að hafa slíka búninga um borð. Ögmundur ætlar að beita sér fyrir því að málið verði skoðað í ráðuneytinu en tillaga þessa efnis hefur legið í ráðuneytinu árum saman.

Fært á hjólastól yfir Markarfljót

Áhugahópurinn Vinir Þórsmerkur hefur fengið heimild í skipulagsnefnd Rangárþings til að vinna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna byggingar göngubrúar yfir Markarfljót á móts við Húsadal í Þórsmörk.

Eðlilegt að hlera við rannsókn á hruninu

Ríkir almannahagsmunir eru fyrir því að upplýsa brot í aðdraganda bankahrunsins og beita til þess hlerunum segir ráðgjafi sérstaks saksóknara. Formaður Lögmannafélagsins segir dómstóla túlka almannahagsmuni of vítt.

Ekki útilokað að Guðrún Páls verði áfram bæjarstjóri

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Listi Kópavogsbúa hafa hafið viðræður um myndun meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Ekki er útilokað að Guðrún Pálsdóttir verði áfram bæjarstjóri í skjóli nýs meirihluta. Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, gæti komist í lykilstöðu í eins manns meirihluta í bænum.

Vaka sigraði í Stúdentaráðskosningum

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, fór með sigur úr býtum í stúdentaráðskosningum Háskóla Íslands. Á kjörskrá voru 15.203 og var heildarfjöldi atkvæða 4.807.

Vill samstarf allra flokka í bæjarstjórn

Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næst Besta Flokksins í Kópavogi, býst ekki við því að meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa sé starfhæfur. Ómögulegt sé að mynda starfhæfan meirihluta.

Gáttuð á baðvenjum Íslendinga

Skilti sem Íslendingar hafa þekkt svo árum skipti af sundstöðum borgarinnar er farið að vekja athygli erlendis. Á skiltinu eru sundgestir beðnir um að baða sig vandlega án sundfata. Iva Rose Skoch, pistlahöfundur á vefnum Global Post, vekur athygli á málinu og segist hafa átt samtal um þetta við íslenskan félaga sinn.

Gera ráð fyrir allt að 1000 manns á sundmót samkynhneigðra

Undirbúningur heimsmeistaramóts samkynhneigðra í sundi gengur vel, en mótið mun fara fram í Reykjavík síðustu helgina í maí. Í dag fékk Strákafélagið Styrmir, sem sér um undirbúning mótsins, þriggja milljóna króna styrk frá borgarráði vegna mótsins. Auk þess leggur borgin til aðstöðu því mótið fer fram í Laugardalslauginni og Sundhöllinni. Það er Stákafélagið Styrmir sem hefur veg og vanda að undibúningnum.

Gunnar segir bara pass

"Bara pass,“ sagði Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, þegar hann var spurður út í gang meirihlutaviðræðna í Kópavogi. Oddvitar Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Lista Kópavogsbúa hafa staðfest að meirihlutaviðræður væru í gangi.

Enn leitað að manni og bíl vegna sprengjunnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn að karlmanni og hvítri sendibifreið (Renault Kangoo) í tengslum við rannsókn hennar á sprengjunni sem fannst neðst á Hverfisgötu í Reykjavík á þriðjudagsmorgun. Maðurinn var klæddur í víðar, bláar gallabuxur (dökkar) og var með lyklakippu hangandi í buxunum. Hann var í dökkri úlpu og mögulega í hettupeysu innan undir. Maðurinn er þéttvaxinn og var þunglamalegur í hreyfingum. Óvíst er með aldur hans en líklega er maðurinn á miðjum aldri. Hann er talinn vera meðalmaður á hæð.

Ekkju greiddar bætur þrátt fyrir að eiginmaðurinn reykti

Tryggingafélagið Okkar líftryggingar hf., var dæmt til þess að greiða ekkju fullar bætur vegna líftryggingar eiginmanns hennar sem lést árið 2010. Tryggingafélagið neitaði í fyrstu að greiða trygginguna og hélt því fram að hinn látni hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart félaginu í sviksamlegum tilgangi þegar hann svaraði því til, þegar hann keypti trygginguna, að hann reykti ekki.

Segir viðræðurnar hafa gengið vel

Ómar Stefánsson, oddviti framsóknarmanna í bæjarstjórn Kópavogs, segir ekkert liggja fyrir um það hver taki við bæjarstjórnarstólnum í Kópavogi. Oddvitar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Lista Kópavogs hafa setið í dag að meirihlutaviðræðum. "Mín upplifun var sú að þetta gekk vel,“ segir Ómar. Hann vill ekkert segja til um það hversu langan tíma meirihlutaviðræðurnar gætu tekið. "Við skulum bara sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér,“ segir hann. Ómar segir að einungis oddvitar flokkanna hafi komið að viðræðunum í dag. Hann vill ekkert segja um hverjir gætu bæst inn í þær samningaviðræður.

Segir útspil Já vera klúður

Sérfræðingur í almannatengslum segir útspil Já vera klúður að óþörfu, en fyrirtækið hefur látið hanna límmiða til að líma yfir forsíðu símaskrár síðasta árs en á henni er mynd af Agli Einarssyni, öðru nafni Gillz, og fimleikastúlkum úr Gerplu.

Mottumars á næsta leiti

Nú er fullt tilefni fyrir karlmenn til þess að fara að huga að skeggsöfnun því Mottumars verður hleypt formlega af stokkunum 1. mars næstkomandi. Úrslitin ráðast ekki fyrr en mánuði seinna, eða í lok mars. Þetta er í fimmta sinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein en í þriðja sinn sem karlmenn eru hvattir til að safna yfirvararskeggi og styrktaráheitum.

Hætta á að aldraðir einangrist

Aldraðir hafa sumir hverjir ekki efni á að taka þátt í félagsstarfi. Þetta segir tæplega sjötug kona en sjálf átti hún tæpar sautján þúsund krónur til að lifa af eftir að hafa greitt reikningana í janúar. Um áramótin hækkaði Reykjavíkurborg verð á þjónustu við aldraða. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur mótmælt þessum hækkunum og segir þær koma illa við aldraða. Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir mikið um að fólk hringi á skrifstofuna og beri sig illa. Hann segir að þó ekki sé um háar upphæðir að ræða safnist þær saman. Verð á máltíðum hækkaði til að mynda úr 550 kr. í 610 kr. Kaffi hækkaði úr 100 kr. í 150 kr. Námskeiðisgjöld og brennslugjald fyrir leir og postulín hækkaði úr 200 kr. í 250 kr. og akstursgjald fer í mörgum tilfellum úr 350 krónum í 1.000 krónur. Sigurður óttast að hækkanirnar komi til með að draga úr þátttöku aldraðra í félagsstarfi. ,, Þetta gæti aukið einangrun fólks. Að það sæki síður félagsstarf. Farið síður út úr húsi og stefna Reykjavíkurborgar undanfarin ár hefur einmitt verið að koma í veg fyrir að fólk einangrist heima hjá sér að það sæki meira út". Eva Ólöf Hjaltadóttir verður sjötug á árinu. Hún getur nú sjaldnar en áður tekið þátt í félagsstarfi vegna kostnaðar. Ellilífeyrir hennar er 144 þúsund krónur á mánuði eftir skatta. Tæpar 90 þúsund krónur fara í leigu og svo þarf hún einnig að greiða hita, rafmagn og aðra reikninga. ,, Í janúar átti ég 16.700 krónur eftir þegar ég var búin að borga allt". Fjöldi íbúða fyrir aldraða er í sama húsi og félagsmiðstöðin og hafa fleiri í blokkinni dregið úr þátttöku í félagsstarfinu. ,, Það hefur hækkað það mikið að eiginlega sjáum við ekki fólkið sem á heima í húsinu nema endrum og eins", segir Eva.

Ólafur Ragnar og Al Gore skoða mörgæsir og seli

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú, eru enn stödd á Suðurskautslandinu ásamt fríðu föruneyti. Forsetaembættið hefur nú birt fleiri myndir úr ferðinni.

Landhelgisgæslan leigir þyrlu - bilaði á leiðinni heim

Landhelgisgæslan hefur tekið þyrluna TF-SYN á leigu frá Noregi en þyrlan bilaði á leiðinni til Íslands. Þyrlan þurfti að lenda í Færeyjum. Við skoðun á vélinni í Færeyjum kom í ljós leki í vökvakerfi á aðalgírboxi sem verið er að kanna nánar.

Kannast ekki við nýjan meirihluta í Kópavogi

"Þú ert að segja mér fréttir,“ segir Rannveig Ásgeirsdóttir, bæjarfulltrúi Lista Kópavogsbúa, í samtali við Vísi nú fyrir stundu. Á vef Morgunblaðsins er fullyrt að búið sé að mynda nýja meirihluta í bænum með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Lista Kópavogsbúa.

Sérstakur saksóknari með aðgerðir hjá KPMG

Fulltrúar á vegum embættis Sérstaks saksóknara fóru inni í endurskoðandafyrirtækið KPMG nú fyrir skömmu. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Jónssyni, framkvæmdastjóri KPMG komu fulltrúar sérstaks saksóknara inni í fyrirtækið og óskuðu eftir upplýsingum tengdum Milestone.

Sjá næstu 50 fréttir