Innlent

Mottumars á næsta leiti

JHH skrifar
Tveir vel mottaðir menn, þeir Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Tveir vel mottaðir menn, þeir Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Nú er fullt tilefni fyrir karlmenn til þess að fara að huga að skeggsöfnun því Mottumars verður hleypt formlega af stokkunum 1. mars næstkomandi. Úrslitin ráðast ekki fyrr en mánuði seinna, eða í lok mars. Þetta er í fimmta sinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein en í þriðja sinn sem karlmenn eru hvattir til að safna yfirvararskeggi og styrktaráheitum.

„Átakið í fyrra heppnaðist einstaklega vel og sá fjöldi karlmanna sem tók virkan þátt í skeggsöfnuninni var ótrúlegur. Við vonum að enn fleiri safni yfirvararskeggi núna, hvort sem er í einstaklings- eða liðakeppninni, og hvetjum jafnframt alla til að tileinka sér upplýsingar um hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir krabbamein eða greina það snemma," segir Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Átakið er sem fyrr tvíþætt, árveknisátak og fjáröflunarátak, og verður söfnunarféð notað til að efla forvarnir og fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf. Einn af hverjum þremur karlmönnum fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Árlega greinast hér á landi að meðaltali um 720 karlar með krabbamein og árlega deyja að meðaltali um 280. Margt bendir til að koma megi í veg fyrir þriðjung krabbameina með fræðslu og forvörnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×