Fleiri fréttir

Jón Ólafs lýsir yfir framboði og Jón Gnarr íhugar það

Eftir yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar þess efnis að hann hyggi ekki á áframhaldandi búskap á Bessastöðum keppast menn nú við að finna mögulegan arftaka. Tveir Jónar hafa í dag bæst í hópinn, Jón Gnarr borgarstjóri sagðist í viðtali á Rás 2 í morgun vera að íhuga framboð. Jón Ólafsson, sem síðustu ár hefur einbeitt sér að því að selja vatn, er á Pressunni sagður hafa lýst yfir framboði á Nýársfagnaði í gær. Ekki hefur náðst í Jón til þess að fá þetta staðfest.

Rætt um að Katrín taki við af Katrínu

Þegar að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fer í fæðingarorlof, sem reiknað er með að gerist á næstunni, er líklegt að ráðherra úr röðum VG haldi um stjórnartaumana í iðnaðarráðuneytinu.

Tveir fjögurra bíla árekstrar á sama tíma

Tveir fjögurra bíla árekstrar urðu á sama tíma í höfuðborginni á öðrum tímanum í dag. Einn varð á Kringlumýrarbraut í Fossvogi og hinn á Miklubraut til móts við Kringluna. Engin meiðsli urðu á fólki samkvæmt upplýsingum frá árekstur.is. Mikil hálka er að myndast á götum borgarinnar og eru ökumenn beðnir um að fara sérstaklega varlega.

Telur líklegt að leið Ólafs liggi í stjórnmálin á ný

Doktor í stjórnmálafræði telur leið Ólafs Ragnars Grímssonar nú liggja í stjórnmálin á nýjan leik, mögulega í gegnum flokkapólitík og þingkosningar. Í nýársávarpi sínu hafi hann sagt með afdráttarlausum hætti, að hann segi nú skilið við forsetaembættið.

Eldsneyti hækkar - hömstruðu steinolíu fyrir helgi

Örtröð myndaðist um áramótin á bensínstöðvum, þar sem menn voru að hamstra steinolíu, sem hækkaði um 39 prósent um áramótin. Þá er hækkun á vöru- og kolefnagjöldum ríkisins þegar farin að hækka verð á bensíni og dísilolíu.

Tekinn ölvaður undir stýri: Ákvað að taka "sénsinn"

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Einn af þeim, sem tekin var við Flúðir á nýársnótt, sagði við lögreglumenn að hann ákveðið að taka "sénsinn" þar sem lögreglumenn væru lítið á ferðinni á svæðinu. Annað kom þó í ljós og fær hann eflaust ákæruna senda heim til sín á næstu vikum.

Lítið var laust á hótelum yfir hátíðarnar

Áætlað er að ríflega 4.000 ferðamenn hafi heimsótt Reykjavík nú um áramótin. Í fyrra er talið að um 3.500 ferðamenn hafi sótt borgina heim, að mati Höfuðborgarstofu.

Fjöldi nýnema mætir aldrei

Brottfall 1. árs nema við Háskóla Íslands er of hátt. Hafi skráningarhlutfall ekki breyst eftir hrun hafa 1.500 stúdentar ekki mætt, hætt snemma eða fallið á prófi. Stöðupróf eru íhuguð til að mæta brottfalli.

Hægt að fylgjast með ferðum strætó á vefnum

Með nýju rauntímakorti á vef Strætó bs. er nú hægt að fylgjast með ferðum strætisvagna í rauntíma. Þannig geta strætófarþegar með hjálp nýjustu tækni séð hvar vagninn sem þeir ætla að taka sér far með er staddur á hverjum tíma.

Aðeins helmingur flugferða á réttum tíma

Aðeins um helmingur véla Icelandair og Iceland Express frá landinu var á réttum tíma seinnihluta desember. Álíka hlutfall af ferðum Icelandair til Keflavíkur stóðst hinsvegar áætlun. Þetta kemur fram á vefsíðunni túristi.is.

Frummatsskýrsla um snjóflóðavarnir kynnt

Frummatsskýrsla um "ofanflóðavarnir neðan Gleiðarhjalla á Ísafirði“ hefur verið lögð til athugunar og kynningar hjá Skipulagsstofnun. Skýrslan fer í auglýsingu rétt fyrir eða eftir áramót og hefst þá formlega kynningarferlið. Skýrsluna er hægt að nálgast á vef Náttúrufræðistofnunar Vestfjarðar ásamt teikningum og fylgiskjölum.

Rýmdu og lokuðu skemmtistað í Kópavogi í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rýmdi og lokaði skemmtistað í Kópavogi upp úr klukkan fimm í morgun, þar sem skemmtanahald var í fullum gangi og að minnsta kosti 50 gestir innandyra.

Íkveikjur á fjórum stöðum

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu þurfti að slökkva í fjórum ruslagámum í gærkvöldi og í nótt, en hvergi hlaust alvarlegft tjón af.

Útsölur hefjast víða í dag

Útsölur hefjast víða í dag, meðal annars í mörgum verslunum í Kringlunni og Smáralind, en sumstaðar hófust þær fyrir áramót.

Myndir frá nýársmóttöku forsetans

Eftir að ávarpa íslensku þjóðina og veita ellefu Íslendingum heiðursverðlaun hélt forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, árvissa nýársmóttöku þar sem ráðherrum, hæstaréttardómurum, alþingismönnum, sendiherrum og fleirum var boðið til Bessastaða til samkvæmis. Ljósmyndari fréttastofu var á staðnum og smellti af þegar gestirnir mættu á staðinn. Meðal þeirra voru Vigdís Finnbogadóttir, Geir H. Haarde, Jón Bjarnason, Karl Sigurbjörnsson og fleiri.

Fann giftingarhringinn á gulrót eftir 16 ára leit

Sænsk kona er skýjunum eftir að hún fann giftingarhring sem hún glataði fyrir 16 árum. Hringurinn fannst í matjurtargarði konunnar en hann var fastur utanum gulrót sem konan hafði beðið með að taka upp þangað til nú.

Hreystimenni hófu árið á sjósundi

Fjöldi manns hóf nýtt ár í ísköldum sjónum í Nauthólsvíkinni í morgun. Vont en það venst sagði einn prúðbúinn sjósundsnagli. Ískaldur sjór hefur væntanlega ekki verið það fyrsta sem allir hugsuðu um þegar augun voru opnuð á fyrsta degi ársins tvöþúsund og tólf í morgun. Margir hafa að öllum líkindum verið frekar lúnir eftir eftir áramótafögnuð næturinnar, en þó eru Íslendingar harðir af sér og skelltu tæplega þrjúhundruð manns sér í sjóinn í Nauthólsvíkinni. Fallegar konur í sínu fínasta pússi, herramenn með slaufu í hárinu og svona mætti lengi telja. Einn harðasti sjósundsmaður landsins lét sig að sjálfsögðu ekki vanta frekar en fyrri daginn.

Pólsk hjón eignuðust fyrsta barnið

Pólsk hjón eignuðust fyrsta barnið sem fæddist á Íslandi árið 2012. Þau hafa búið hér í tvö ár og lofa mjög heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Það var myndarlegur drengur sem kom í heiminn þegar fimm mínútur voru liðnar af nýja árinu. Hann er þrettán merkur og fimmtíu sentimetrar. Fæðingin gekk vel og voru foreldrarnir að tygja sig heim þegar við hittum þau skömmu eftir hádegið í dag.

Árið fer skart af stað hjá lögreglu

Nýja árið heilsar lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með önnum. Upp úr hádegi var karlmaður handtekinn í Kópavogi en hans hefur verið leitað. Hann er eftirlýstur vegna vangoldinna sekta. Mun hann þurfa að dvelja í fangelsi eitthvað frameftir á nýju ári. Um hálf tvö var tilkynnt um skemmdarverk í Hólabrekkuskóla. Þar hafði rúða verið brotin með einhverskonar sprengju. Ekki er vitað um gerendur.

Áramótin á myndskeiði

Baldur Hrafnkell, myndatökumaður Stöðvar 2, brá sér á kreik í gærkvöldi og filmaði kveðjur Íslendinga til liðins árs og sprengjuæðið sem mætti hinu nýja þegar það gekk í garð. Þar má sjá Hallgrímskirkjuturn í marglitu neistaregni, börn með stjörnuljós, fólk að brosa og fólk með vín í flöktandi bjarma áramótabrennu. Yfir öllu saman glymur svo gamalkunnugt skátalag og gleðin er við völd.

Ekkert banaslys á sjónum

Nú við áramót hefur þeim merka áfanga verið náð í annað sinn í sögunni að ekkert banaslys hefur orðið meðal íslenskra sjómanna á árinu sem er að líða. Síðast gerðist það árið 2008. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að ljóst sé að öryggi íslenskra sjómanna hafi aukist til mikilla muna sem og öryggisvitund þeirra, sem hafa tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum. Má með sanni segja að starf Slysavarnaskóla sjómanna í fræðslu til sjómanna um öryggismál hafi þar en og aftur sannað mikilvægi sitt.

Embætti forseta nú virkt afl í íslenskum stjórnmálum

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðingur hjá Háskóla Íands, segir að embættistíð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, muni hafa varanlegar breytingar í för með sér. Hann segir að Ólafur Ragnar hafi aukið völd forsetans til muna og gert embættið að virku afli í íslenskum stjórnmálum. Ekki sé hægt að útiloka það að næstu forsetar lýðveldisins muni beyta synjunarvaldinu á sama máta og Ólafur hefur gert.

Slapp við varanlegan augnskaða

Sjö ára drengur sem brenndist í nótt þegar hann fékk flugeld í andlitið hefur verið útskrifaður af Landspítalanum. Hann hlaut ekki varanlega áverka á augum, en brenndist nokkuð illa í andliti. Óhappið varð þegar hann og móðir hans stóðu álengdar og horfðu á aðra skjóta upp rakettum. Einn flugeldurinn fór ekki á loft heldur sprakk á jörðinni og drengurinn fékk glæður af honum í andlitið. Strákurinn var ekki með öryggisgleraugu. Af þessu óhappi má því draga þann lærdóm að jafnvel þó maður sjái ekki sjálfur um að kveikja í flugeldunum heldur standi til hliðar og fylgist með sé engu að síður vissara að hafa öryggisgleraugu á sér.

Ellefu Íslendingar sæmdir Fálkaorðu

Forseti Íslands sæmdi ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Hér að neðan er listi yfir þá sem hlutu orðuna í dag. 1. Arnar Jónsson leikari, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar leiklistar. 2. Eymundur Magnússon bóndi, Vallanesi, riddarakross fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar.

Biskup segir landsdómsákæruna þjóðarsmán

"Gata hefnda og haturs er blindgata," sagði biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson í prédikun sinni í dómkirkjunni í morgun, og sagði að Landsdómsákæran "gegn einum manni væri vottur þess" að þjóðin hefði leiðst inn á slíkar ófærur. Hann sagði mikilvægt að lögsækja vegna afbrota og dæma hina seku, en þótti hins vegar umhugsunarvert ef menn væru "dæmdir" án dóms og laga með ofsafenginni og óvæginni umræðu. Hann bað fólk að huga að orðum sínum og láta af gífuryrðum og illmælgi á fréttamiðlum og bloggum.

Skotterta sprakk við jörðu í Breiðholti í gær

Íbúar í Vesturbergi í Breiðholti áttu fótum sínum fjör að launa í gærkvöldi þegar flugeldar skottertu sprungu án þess að takast á loft. Íbúi í Vesturbergi segir sprenginguna hafa verið ótrúlega sjón. Framkvæmdarstjóri Landsbjargar bendir fólki á að tilkynna slík atvik.

Ólafur telur ríkisvaldið of umsvifamikið

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði þjóð sína frá Bessastöðum í dag. Þar fór hann í stuttu máli yfir atburði liðins árs. Í upphafi komandi árs telur hann Ísland betur statt en ýmsar nágrannaþjóðir sínar sökum þess að Íslendingar gætu treyst á ríkulegar auðlindir.. "Ísland er að vissu leyti komið í var," sagði hann. "Þjóðin getur því átt í vændum betri kjör. Þá þurfum við að halda vel á málum, muna mistök okkar og draga af þeim lærdóm og loks hafa hugrekki til að feta nýja braut af ábyrgð."

Ólafur hyggst ekki bjóða sig fram aftur

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann hyggðist ekki bjóða sig fram í næstu forsetakosningum. "Þó árin hafi liðið hratt er samt liðinn langur tími frá því ég ávarpaði ykkur fyrst úr þessum sal," sagði Ólafur og kvaðst hafa leitast við að sinna forsetaembættinu eftir bestu samvisku. Þær ákvarðanir sem hann hefur sem forseti þurft að taka hafa verið erfiðar, en jafnframt veitt honum mikla gleði.

Skíðasvæði opin í dag

Skíðafólki gefst færi á að renna sér inn í nýja árið því Bláfjöll verða opin í dag frá klukkan tólf til fjögur. Frábært veður er á svæðinu og nýtt púður yfir öllu. Þá verður einnig opið í Hlíðarfjalli á Akureyri frá tólf til fjögur. Blankalogn er sem stendur á svæðinu og troðinn þurr snjór í brekkum.

Ungur drengur brenndist á andliti

Ungur drengur var fluttur á barnadeild á Barnaspítala Hringsins í nótt vegna brunasára á andliti. Áverkana hlaut hann við flugeldasprengingar. Drengurinn er sjö ára. Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um alvarleika meiðslanna. Ekki náðist í vakthafandi lækni vegna málsins að svo stöddu. Nýársnóttin var að öðru leyti með venjubundnu áramótasniði á slysadeild Landspítalans. Að sögn læknis voru um 70-80 manns sem trilluðu þar í gegn frá miðnætti og fram undir morgun vegna ýmis konar áverka. Það ku vera um tvöfaldur fjöldi miðað við venjulega helgi.

Kviknaði aftur í kulnaðri brennu

Eldur tók sig upp aftur í nýársbrennu um níuleytið í morgun í Suðurhlíðunum. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út og eldurinn slökktur án nokkurra vandræða. "Það var mikill eldsmatur eftir þegar slökkt var í brennunni og einhverjar glæður leyndust í kjarnanum sem tóku sig upp aftur,“ segir starfsmaður slökkviliðsins.

Nýársnótt róleg framan af

Nýársnóttin var fremur róleg framan af hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en undir morgun tók við talsverður erill vegna slagsmála og ofdrykkju. Engan sakaði þó alvarlega vegna þeirra viðskipta. "Einhver uppskar kannski brotið stolt, en ekkert alvarlegra," segir lögreglumaður á vakt. Vaktmaður Lögreglunnar á Suðurnesjum sagði nóttina hafa verið rólega. "Það eru auðvitað alltaf einhverjir snúningar sem fylgja þessari nótt, hjálpa fólki heim og fleira. En það voru engin meiriháttar mál," sagði hann.

Nýársnótt hjá lögreglu

Líkamsárás, lausaganga hrossa og ölvunarakstur var á meðal þess sem kom inn á borð lögreglu þessa fyrstu nótt ársins. Maður um tvítugt var fluttur á sjúkrahús eftir líkamsárás sem átti sér stað á Gíslagötu við Ráðhúsið á Akureyri um fimmleytið í nótt. Karlmaður veitti unga manninum kjaftshögg með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði og þarf að gangast undir aðgerð. Árásarmaðurinn er ekki í haldi lögreglu þar sem hann var farinn af vettvangi þegar hana bar að. Hann er þó þekktur og verður yfirheyrður þegar til hans næst.

Sjá næstu 50 fréttir