Fleiri fréttir

Fimm skip komin á loðnumiðin norðaustur af landinu

Að minnsta kosti fimm loðnuskip eru haldin út til loðnuleitar og eru þau nú dreifð um svæði djúpt norðaustur af landinu. Ekki hafa enn borist fréttir af veiðum enn sem komið er, enda skipin ný komin á svæðið.

Áfram ófær um að loka Guantanamo

Obama Bandaríkjaforseti segist nauðbeygður hafa staðfest lög sem gera honum áfram ókleift að loka Guantanamo-búðunum á Kúbu. Með lögunum tryggði hann Bandaríkjaher fjármagn til að halda áfram umsvifum sínum víða um heim.

Olíustarfsemin byrjar á morgun - borpallur 2017

Morgundagurinn markar upphafið að olíuævintýri Íslendinga, að mati leitarstjóra Valiant Petroleum, sem segir allar rannsóknir benda til þess að Íslendingar verði olíuþjóð. Hann telur að fyrsti borpallurinn komi á Jan Mayen-svæðið á árunum 2017 til 2018. Fáir þekkja Drekasvæðið betur en Norðmaðurinn Terje Hagevang.

Rafmagnslaust á Selfossi

Rafmagnslaust er á Selfossi þessa stundina. Vísir hefur ekki náð tali af Selfossveitum til þess að fá upplýsingar um ástæður rafmagnsleysis.

Grunaðir þjófar úrskurðaðir í farbann

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag tvo pólska karlmenn í fjögurra vikna farbann, en þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi ásamt einum öðrum frá því 20. desember. Lögreglan fór ekki fram á framlengingu á gæsluvarðhaldinu en óskaði þess í stað tveir af þeim skyldu sæta farbanni.

Litháa vísað úr landi

Hæstiréttur staðfesti í dag ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að litháískur karlmaður, búsettur hér á landi, skyldi framseldur til Litháen. Maðurinn er grunaður um að hafa dregið sér 865 evrur sem framkvæmdastjóri fyrirtækis og að hafa heimildarlaust tekið út af reikningi annars manns með bankakorti sem hann komst yfir. Slík brot sem maðurinn er grunaður um geta varðað allt að sex ára fangelsi hér á landi.

Volt er mættur

Rafbíllinn Chevrolet Volt er kominn til landsins og verður bíllinn kynntur hjá Bílabúð Benna næstkomandi laugardag. Volt kemst um 60 km á rafhleðslunni einni saman og framleiðir auk þess eigin raforku sem lengir heildarökudrægi bílsins í allt að 500 km. "Volt er staðfesting á stöðu Chevrolet sem eins framsæknasta bílaframleiðanda heims", er haft eftir forsvarsmönnum Bílabúðar Benna. Segja þeir að stór orð hafi nú þegar verið höfð um hann og Volt hafi hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar á mörkuðum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. "Volt hefur verið á Bandaríkjamarkaði í tvö ár og eigendurnir þar hafa sett hann á topp ánægjulistans bæði árin. Volt var einnig útnefndur Bíll ársins 2011 af bæði Automobile Magazine og fagritinu Motor Trend. Hann hefur jafnframt hlotið sæmdarheitið "Umhverfisbíll ársins 2011“ hjá tímaritinu Green Car Journal. Nýjasta afrekið er afgerandi sigur á bílasýningunni í Genf þar sem hann hlaut titilinn "Bíll ársins 2012“. Dómnefndin var skipuð 59 leiðandi bílablaðamönnum frá 23 Evrópuríkjum.“ Chevrolet Volt verður frumsýndur gestum og gangandi laugardaginn 5. janúar, frá kl. 12 til 18 í Bílabúð Benna, Tangarhöfða 8.

Segir Landspítalahugmyndina ekki tengjast fjármálum Kirkjunnar

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við þeirri hugmynd að Kirkjan hafi frumkvæði að söfnun fyrir tækjakaupum fyrir Landspítala Íslands. Þetta segir hún í tilefni orða Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarráðs í fréttum RÚV, að skrýtið væri að Kirkjan sem sækist eftir meira fé úr ríkissjóði vilji hrinda slíkri hugmynd í framkvæmd.

Kærir Skaupið meðal annars fyrir kynferðisbrot

Ástþór Magnússon hefur kært Pál Magnússon til lögreglu vegna síðasta áramótaskaups auk þess sem hann hefur kvartað til Fjölmiðlanefndar, meðal annars fyrir kynferðisbrot.

Meint brot lögreglumanna enn í rannsókn hjá Ríkissaksóknara

Rannsókn á máli tveggja fyrrverandi starfsmanna Sérstaks saksóknara, þeirra Jóns Óttars Ólafssonar og Guðmundar Hauks Gunnarssonar, stendur enn yfir. Hún er á lokastigi segir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, sem fer með rannsókn málsins.

Hér dugar enginn "heimilskattaþvottur“

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir á bloggsíðu sinni að ástæðan fyrir löku gengi flokks hans í nýjum þjóðarpúlsi Gallups sé sú að forystumenn flokksins séu of hallir undir vegferð Samfylkingarinnar um að sækja um aðild að ESB.

Ísland heitasti og rómantískasti staðurinn á veturna

Hið heimsfræga tímarit Hello! segir að Ísland sé heitasti og rómantískasti áfangastaðurinn til að heimsækja á veturna. Í umfjöllun á vef tímaritsins segir að ef maður horfi út um glugga flugvélarinnar þegar maður lendir á Keflavíkurflugvelli sé auðséð hvers vegna mynd Tom Cruise, Oblivion, var tekin upp hér á landi í sumar. Þá segir að landslagið sé einstakt.

Ætla að skapa 210 störf í Hafnarfirði

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu í dag samkomulag um framkvæmd átaksverkefnisins; Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013. Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu verða alls til 210 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði í bænum í tengslum við átakið.

Audi hættir við A2 rafbílinn

Á bílasýningunni í Frankfurt árið 2011 kynnti Audi þessa útgáfu A2-bílsins, eingöngu drifinn áfram með rafmagni. Audi hafði þá uppi áform um að verða enginn eftirbátur annarra bílaframleiðenda í smíði rafbíla. Dræm sala á rafdrifnum bílum síðan þá hefur hinsvegar fengið fyrirtækið af þessum áformum og ekkert verður af smíði þessa bíls, sem keppa átti við BMW i3 og Mercedes Benz A-Class. Forsvarsmenn Audi létu hafa eftir sér að hönnun þessa bíls hafi verið ágætis verkfræðiæfing sem nýtist í framtíðinni, en lítil eftirspurn eftir rafmagnsbílum nú réttlæti hinsvegar ekki að þróuninni verði haldið áfram. Bíllinn átti að koma á markað árið 2014, bæði sem rafmagnsbíll og tvinnbíll. Hann var mjög léttur, eða ríflega 1.100 kg og mest smíðaður úr áli og koltrefjum. Hann var 114 hestöfl og átti að komast um 200 km á fullri hleðslu.

Óvissustigi vegna snjóflóða aflýst

Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur aflýst óvissustigi vegna hættu á snjóflóðum á Norðanverðum Vestfjörðum og Sunnanverðum Vestfjörðum.

Dómur um Icesave kveðinn upp 28. janúar

Dómurinn í Icesave málinu verður kveðinn upp þann 28. janúar næstkomandi í Luxemborg. Málflutningur fór fram í haust, en ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, Hollendingar, Bretar og Evrópusambandið stefndu Íslandi eftir ítrekaðar samningatilraunir.

Árborg fylgist grannt með uppblásna íþróttahúsinu

Formaður bæjarráðs Árborgar, Eyþór Arnalds, segir bæjaryfirvöld fylgjast grannt með uppblásna íþróttahúsinu í Hveragerði en bæjarráðið hefur verið skoðað það af alvöru að verða sér út um slíkt mannvirki samkvæmt frétt sunnlenska fréttavefsins dfs.is um málið.

VSÓ leigir rafbíl af Thrifty

Rafbílavæðingin er augljóslega hafin á Íslandi þótt hún fari hægt af stað. Rafbílar eru boðnir til sölu hjá nokkrum bílaumboðum landsins. Auk þess eru þeir nú orðnir aðgengilegir fyrirtækjum og fólki landsins á annan hátt því bílaleigan Thrifty, sem rekin er af Brimborg, býður nú Citroën C-Zero rafbíl til leigu. Í tilkynningu frá Thrifty segir að bílaleigan gæti þess jafnan að bjóða bíla sem eru útbúnir nýjustu spartækni en líklega er ekki hægt að ganga lengra í spartækninni en að bjóða bíl sem notar ekkert innflutt eldsneyti. Sífellt fleiri leigutakar á íslenskum bílaleigumarkaði leggja áherslu á að leigja sparneytna bíla. Bílaleigumarkaðurinn hefur tekið töluverðum breytingum á síðustu árum enda hefur fall krónunnar á ýmsan hátt stutt við aukinn straum ferðamanna til Íslands. Veik króna þýðir einnig að íslensk fyrirtæki þurfa að leita ýmissa leiða til að ná markmiðum sínum í umhverfismálum, eins og að leigja rafbíl fremur en kaupa hann. Frá árinu 2010 hefur bílaleigan Thrifty boðið bíla sem fá frítt í stæði í 90 mínútur í Reykjavík. Bíll sem uppfyllir þau skilyrði getur verið mjög þægilegur fyrir fyrirtæki sem þurfa að sinna mörgum erindum innan dagsins í miðborginni. Af 412 bíla heildarflota Thrifty eru 273 bílar knúnir sparneytnum dísilvélum. Í íslensku samhengi er einnig áhugavert fyrir verkfræðistofu að ráða yfir ökutæki sem nýtir íslenska orku sem framleidd er af viðskiptavinum fyrirtækisins sem gerir rekstur bílsins eins umhverfisvænan og kostur er. Í samtali við Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar sem flytur inn Citroën rafbílinn, kemur fram að töluvert rekstrarlegt hagræði náist með því að leigja rafbíl. Til að mynda er miklu fyrirsjáanlegra hver rekstarkostnaður bílsins er þar sem allur kostnaður bílsins, fyrir utan rafhleðsluna sjálfa, er innifalinn í leiguverðinu. Það má einnig horfa í kostnað á hverja ekna 100 kílómetra því þar er munurinn gríðarlegur. Á Citroën C-Zero kosta 100 kílómetrar aðeins um 170-260 krónur en til samanburðar kostar um 1920 krónur að reka sparneytinn bíl sem gengur fyrir hefðbundnu eldsneyti. Guðjón Jónsson, sviðsstjóri öryggismála og stjórnunar hjá VSÓ ráðgjöf, segir það jákvætt fyrir fyrirtækið að leigja rafbíl þar sem VSÓ ráðgjöf er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi og samgöngustefnu sem kalli á viðeigandi eftirfylgni. Slík eftirfylgni felst meðal annars í því að starfsmönnum fyrirtækisins standa til boða afnot af vespu, reiðhjóli og nú rafmagnsbíl auk þess sem starfsfólk fær frítt í strætó. Allt miðar þetta að því að draga úr umhverfisáhrifum rekstrarins.

Hefði mátt létta skuldabyrði íslenskra heimila og fyrirtækja meira

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi varaformaður bankaráðs Landsbankans, segir að það hefði mátt nýta svigrúm sem gafst með neyðarlögunum sem sett voru haustið 2008 til þess að létta skuldabyrði íslenskra heimila og fyrirtækja.

Skíðalyftur fyrir almenningssamgöngur

Af hverju eru skíðalyftur með lokuðum vögnum ekki notaðar fyrir almenningssamgöngur? Þessari spurningu velti Michael McDaniel fyrir sér þegar hann hann stakk uppá þeirri samgönguleið fyrir þéttustu byggð bandarísku borgarinnar Austin í Texas.

Audi spreðar í baráttunni við BMW

Audi, sem er í eigu Volkswagen, ætlar að eyða 2.200 milljörðum króna á næstu þremur árum í þróun nýrra bíla. Er þetta hluti af því aðgerðarplani Volkswagen að verða stærsti bílaframleiðandi heims árið 2018, en einnig í því augnamiði að Audi taki fram úr BMW í sölu bíla ekki seinna en í enda þessa áratugar. Audi ætlar að selja yfir tvær milljónir bíla á ári þegar áratugurinn er á enda. BMW áætlar að selja 1,54 milljón bíla á þessu ári. Fjármunirnir verða að stórum hluta settir í þróun á léttum yfirbyggingum bíla Audi, sem og þróun nýrra bílvéla. Þá verða settar upp nýjar verksmiðjur í Ungverjalandi, Kína og Mexíkó.

Fox News fjallar um nafnabaráttu Blævar

Vefsíða fréttastofunnar Fox News fjallar um baráttu ritstjóra Séð og Heyrt, Bjarkar Eiðsdóttur og dóttur hennar, en þær hafa stefnt ríkinu vegna þess að dóttir Bjarkar fær ekki að heita Blær. Ástæðan er sú að eftir árið 1973 má aðeins skíra drengi Blær, en nafnið er karlkynsorð.

Hættustigi aflýst á Ísafirði og í Önundarfirði

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur ákveðið að aflýsa hættustigi vegna snjóflóða sem sett var á í gær fyrir reiti 9 á Ísafirði og bæina Veðrará og Fremri-Breiðidal í Önundarfirði.

Of feitum börnum fækkar

Hlutfall sex ára barna yfir kjörþyngd er lægra nú en fyrir tíu árum. Offita barna almennt hefur ekki aukist. Meirihluti skólahjúkrunarfræðinga beitir sér þegar börn eru yfir kjörþyngd, samkvæmt nýrri rannsókn.

Bandaríska þingið frestaði vandanum

Eftir aðeins fáar vikur gæti næsta ágreiningsmál steypt ríkissjóði Bandaríkjanna í ógöngur. Mikill meirihluti repúblikana samþykkti skattahækkanir á auðmenn í báðum deildum þingsins, þrátt fyrir andstöðu leiðtoga flokksins í fulltrúadeild.

Alþingi hefur veitt 242 ríkisborgararétt

Tvisvar á ári veitir Alþingi einstaklingum undanþágu til ríkisborgararéttar. 39 fengu sitt í gegn fyrir jólafrí, en alls hafa 242 fengið ríkisborgararétt með þeim hætti á þessu kjörtímabili. Alþingismaður vill breyta þessu fyrirkomulagi.

Sjá næstu 50 fréttir