Innlent

Litháa vísað úr landi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að litháískur karlmaður, búsettur hér á landi, skyldi framseldur til Litháen. Maðurinn er grunaður um að hafa dregið sér 865 evrur sem framkvæmdastjóri fyrirtækis og að hafa heimildarlaust tekið út af reikningi annars manns með bankakorti sem hann komst yfir. Slík brot sem maðurinn er grunaður um geta varðað allt að sex ára fangelsi hér á landi.

Maðurinn sjálfur bar því við að hann væri í fastri vinnu hér og að nokkrir ættingjar hans, móðursystir og börn hennar, búi hér á landi. Þá segir að hann hafi ekki reynt að koma sér undan refsingu með því að flytja hingað til lands. Hann kannist við mál það sem framsalsbeiðnin byggist á. Hann hafi verið í mikilli áfengisneyslu á þeim tíma sem málið reis og vefengi hann ekki að atvik hafi verið með þeim hætti sem segir í framsalsbeiðninni. Fyrir honum hafi vakað að vinna sér inn fé hér á landi til þess að endurgreiða það sem hann tók.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×