Innlent

Ætla að skapa 210 störf í Hafnarfirði

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu í dag samkomulag um framkvæmd átaksverkefnisins; Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013. Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu verða alls til 210 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði í bænum í tengslum við átakið.

Í Hafnarfirði leggur bæjarfélagið til 63 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði, almenni vinnumarkaðurinn 126 og ríkið 21. Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um ráðgjöf til atvinnuleitenda meðan á þátttöku þeirra í vinnumarkaðsúrræðum átaksverkefnisins stendur. Ein af forsendum samkomulagsins er að samstarf um þjónustu við ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem nýtur fjárhagsaðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins verði efld.

Þegar hafa verið undirritaðir samningar um sambærileg átaksverkefni í Reykjavík og á Akureyri. Gert er ráð fyrir að á landsvísu muni þjóðarátakið Vinna og virkni tryggja um 3.700 atvinnuleitendum tilboð um starfstengd vinnumarkaðsúrræði á þessu ári og byggist framkvæmdin á sameiginlegri viljayfirlýsingu velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, aðila vinnumarkaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar.

Atvinnuleysistryggingasjóður leggur 2,7 milljarða króna til átaksins sem miðar að því að öllum atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. september síðastliðnum til loka næsta árs, verði boðin vinna eða starfsendurhæfing árið 2013.

Almenni vinnumarkaðurinn mun leggja til stærstan hluta þeirra starfa sem átakið felur í sér, eða 60%, sveitarfélögin 30% og ríkið 10%. Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs nýtist að mestu sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir þau störf sem til verða með átaksverkefninu en hluta fjárins verður varið til einstaklinga sem þurfa á atvinnutengdri endurhæfingu að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×