Innlent

Sjávarútvegskaflinn strand hjá Evrópusambandsríkjunum

Þorgils skrifar
Hvar eru sjávarútvegsmálin stödd í aðildarviðræðum við ESB?



Af þeim 33 samningsköflum sem eru til umræðu í aðildarviðræðum Íslands og ESB hafa formlegar viðræður hafist í 27 og lokið til bráðabirgða í ellefu. Eftir síðustu ríkjaráðstefnu í Brussel standa sex kaflar því enn eftir og þar á meðal þeir tveir veigamestu, um sjávarútveg og landbúnað.

Fram hefur komið í Fréttablaðinu að vonir innan framkvæmdastjórnar ESB standi til þess að í lok júní verði viðræður hafnar um alla samningskaflana nema sjávarútveg og landbúnað og samkvæmt heimildum blaðsins gildir það sama innan íslenska samningahópsins.

Framvinda samningaviðræðna í einstökum köflum er háð ákveðnu ferli þar sem framkvæmdastjórnin ber íslensk lög og reglur saman við lagabálk ESB. Svokölluð rýniskýrsla er svo borin undir ráðherraráðið sem er samansett af fulltrúum frá aðildarríkjunum. Þegar öll ríkin hafa samþykkt skýrsluna er hún lögð fram og íslenskum yfirvöldum boðið að leggja fram samningsafstöðu þar sem farið er fram á sérlausnir eða að tillit sé tekið til sérstakra aðstæðna hér á landi. Einungis þá er hægt að hefja samningsviðræður formlega.

Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, sagði aðspurður á ríkjaráðstefnunni fyrir jól að sjávarútvegskaflinn hefði verið afgreiddur frá framkvæmdastjórninni og væri nú til umfjöllunar hjá aðildarríkjunum.

Á meðan er íslenski samningahópurinn um sjávarútveg, sem samanstendur meðal annars af fulltrúum hagsmunaaðila, eins og útvegsmanna og sjómanna, og úr stjórnsýslunni, að vinna að samningsafstöðu Íslands.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við RÚV fyrir jól að sú vinna gengi vel og væri takmarkið að ná sem breiðastri sátt.

Erfitt er að spá um hvenær næsta skref verður tekið og rýniskýrslan verður lögð fram, en heimildir Fréttablaðsins herma að einstök aðildarríki krefjist meiri yfirlegu en önnur.

Ekki er hægt að líta fram hjá áhrifum makríldeilunnar í þeim efnum. Þó margoft hafi verið reynt að undirstrika að deilan tengist viðræðunum ekki beint er ljóst að þó að viðræður gætu hafist áður en samkomulag næst munu lokasamningar ekki nást um sjávarútveg fyrr en makríldeilan leysist, enda er þar um að ræða deilistofn ólíkt hinum staðbundnu stofnum á Íslandsmiðum.

Írar, sem eru einn helsti andstæðingur Íslands í makrílmálum meðal ESB-ríkja, fara með forystu í ESB fyrri helming ársins, þannig að afar ólíklegt verður að þykja að viðræður um sjávarútveg hefjist fyrr en vonir standa til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×