Innlent

Lögreglan ekki með mannafla til þess að fylgjast með síbrotamanni

Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands í dag þar sem karlmaður var dæmdur til þess að afplána 260 daga eftirstöðvar refsingar fyrir að brjóta á skilorði sem hann var á.

Maðurinn, sem var ítrekað undir áhrifum lyfja og áfengis, er meðal annars sekur um að hafa brotist inn í skóla og stolið þaðan tölvu og fleiru. Maðurinn stal einnig 10 pökkum af núðlum, Expresso kaffivél, blandarakönnu, hrærivélaskál ásamt fylgihlutum og tveimur jólahúsum með ljósaperum í, frá eigendum efri hæðar fasteignar sem móðir hans bjó í.

Maðurinn skilaði raunar þýfinu og skrifaði afsökunarbeiðni að auki þar sem stóð meðal annars að hann hefði verið undir miklum áhrifum vímuefna þegar brotið átti sér stað. Það var lögreglan á Höfn sem kom upp um afbrotin.

Þá segir í kröfu lögreglustjóra, sem fer fram á að maðurinn afpláni eftirstöðvar refsingarinnar, að lögreglan hafi miklar áhyggjur að því að maðurinn haldi uppteknum hætti nú þegar hann sé kominn austur og telji mjög slæmt að hafa hann „ráfandi undir áhrifum áfengis eða lyfja um götur bæjarins að nóttu til".

Svo segir að lögreglan hafi ekki mannafla til að halda uppi eftirliti að nóttu til, svo dögum skipti, eins og þyrfti að gera við þessar aðstæður að hennar mati.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði brotið gróflega gegn skilorði sínu og þarf hann því að afplána eftirstöðvar refsingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×