Innlent

Fárviðrið afhjúpaði veikleika í kerfinu

BBI skrifar
Mynd/Hafþór
Ofsaveðrið sem gekk yfir Vestfirði um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku-, samgöngu og fjarskiptamálum Vestfirðinga að mati þingmannsins Ólínu Þorvarðardóttur. Hún hefur óskað eftir sérstakri umræðu á þinginu.

Í bloggpistli á Eyjunni segir Ólína ótækt að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða, Ísafirði, séu lokaðar dögum saman þegar snjóar. „Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum," skrifar hún og vill fá jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar á teikniborðið hið fyrsta.

Henni finnst einnig að Orkubú Vestfjarða skuldi almenningi skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda.

Þá bendir hún á að tilkynningar frá almannavörnum um hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu hefðu mátt berast til fólks gegnum GSM síma og útvarp. „Svör orkubússtjóra um að „panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×