Fleiri fréttir

Nauðsynlegt prófmál

"Niðurstaða Hæstaréttar staðfesti eignarrétt landeigenda og ég óska þeim til hamingju með það," segir Geir H. Haarde, fjármálaráðherra. "Rétturinn tekur þó á hinn bóginn undir aðrar kröfur sem ríkið gerði." Hann segir að það hafi verið nauðsynlegt að reka málið alla leið í Hæstarétt til að fá skýra niðurstöðu um ákveðin grundvallaratriði sem kunna að hafa þýðingu í öðrum þjóðlendumálum.

Deilan um landið á tímamótum

Jarðeigendur í uppsveitum Biskupstungna halda jörðum sínum óskertum en afréttur sem þeir gerðu kröfu til verður að þjóðlendum samkvæmt dómi Hæstaréttar í gær. Ríkið gerði kröfu um hluta jarðanna. Með dómnum er staðfestur úrskurður óbyggðanefndar frá því árið 2000. Þetta er fyrsti dómur Hæstaréttar í þjóðlendumáli.

Mengun 15 sinnum yfir viðmið

Svifryk í andrúmslofti í Reykjavík fór fimmtán sinnum yfir viðmiðunarmörk á síðasta ári, oftar en nokkru sinni áður. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofu Reykjavíkur. Talið er að aukin notkun bíla og breytt veðurfar í borginni hafi haft þessi áhrif. Svifryk mælist mest á þurrviðrisköflum að vetrarlagi þegar jörð er snjólaus.

Lokatilraun til samninga brást

Kennarasambandið vill semja sér við hvert sveitarfélag í næstu kjarasamninga. Fundum samninganefndanna verður ekki framhaldið næstu tvær vikurnar nema eitthvað nýtt komi fram. Sveitarfélögin segjast ekki munu óska eftir nýjum fundum. Allt er því strand í kennaradeilunni.</b />

Lögfræðingur skoðar rétt bæjarins

Sveitarstjórnin í Súðavík hefur fengið lögfræðing til að meta hvort um verkfallsbrot yrði að ræða, eins og verkfallsstjórn kennara telur, fari dagvistun barna fram í íþróttahúsi bæjarins í verkfalli kennara.

Skemmdir í kirkjugarði í Keflavík

Skemmdir voru unnar í kirkjugarðinum við Aðalgötu í Keflavík í gær. Fimm krossar voru losaðir upp og 21 legsteini var velt við. Einn legsteinn var brotinn sem og nokkur luktarhús, blómaker og styttur.

Gríðarlegt áfall að ekki samdist

Fundarslitin í Karphúsinu eru gríðarlegt áfall, segir Stefán Jón Hafstein formaður fræðsluráðs Reykjavíkur. "Það sem gerist núna kallar á varfærin viðbrögð. Það má alls ekkert út af bregða," segir Stefán Jón.

32. dagur verkfalls

"Á jákvæðan hátt sendur fólk saman," segir Ólafur Loftsson formaður Kennarafélags Reykjavíkur. Kennarar hafi hreina samvisku því kröfur þeirra séu á engan hátt óréttmætar.

Borgin mismunar börnum

Reykjavíkurborg mismunar fötluðum börnum með því að greiða einungis úr neyð einhverfra barna í verkfalli kennara, segir Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir.

Zarqawi á lista Sameinuðu Þjóðanna

Hryðjuverkahópar sem lúta stjórn Abus Musabs al-Zarqawis í Írak eru nú komnir á alþjóðlegan lista Sameinuðu þjóðanna yfir hryðjuverkasamtök. Það þýðir að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna ber að gera allt sem í þeirra valdi er til að koma í vef fyrir ferða félaga í samtökunum, leggja hald á vopn þeirra og frysta fjármuni sem rekja má til þeirra.

Fjölda lamba og kinda bjargað

Fjölmennu liði björgunarsveitarmanna tókst að bjarga tugum ef ekki hundruðum lamba og kinda, sem voru hætt komin í Eiðaþinghá á Fljótsdalshéraði í gær. Þegar björgunarmenn komu á vettvang við erfiðar aðstæður, voru margar kindur við það að örmagnast þar sem blautur snjór hafði sest í ullina og hálf forsið, þannig að kindurnar voru að sligast og örmagnast.

Eitthvað að gerast

Talið er að einhver hreyfing hafi komist á samningaviðræður kennara og sveitarfélaga á fimm klukkustunda samningafundi hjá Ríkissáttasemjara í gær og hefur hann boðað deilendur aftur á fund klukan eitt í dag. Menn verjast þó nánari fregna af fundinum, en í dag hefur verkfall kennara staðið í réttan mánuð.

Verið að gera við brúnna

Vegagerðarmenn eru nú byrjaðir að gera við brúnna yfir Núpsvötn austan við Kirkjubæjarklaustur, eftir að hluti af nýrri málmklæðningu á brúargólfinu flettist upp í veðurofsanum í gærmorgun. Þjóðvegi eitt var þá lokað á milli Skeiðarár og Lómagnúps og er hann það enn. Vegagerðarmenn gátu ekkert aðhafst í gær vegna veðurofsans.

Logaði í heyi fram á kvöld

Glæður loguðu í heyi að bænum Knerri á Snæfellsnesi alveg fram á kvöld í gærkvöldi, efitr að þar kviknaði í í fyrrakvöld með þeim afleiðingum að á milli 600 og 700 fjár drápust þegar fjárhúsin brunnu. Talið er að þetta sé eitthvert mesta búfjártjón hjá einum bónda í Íslandssögunni.

Hætta á hryllilegri hungursneyð

Hætta er á hungursneyð í Darfur í Súdan, sem gæti orðið mun verri en nokkur hungursneyð sem sést hefur á undanförnum áratugum. Þetta er mat sérfræðinga alþjóða Rauða krossins. Talsmenn barnaverndarsjóðs Sameinuðu þjóðanna greindu jafnframt frá því að öryggi í Darfur væri ennþá mjög ábótavant. 

Hollingshorst fékk Booker verðlaun

Booker-verðlaunin, einhver þekktustu bókmenntaverðlaun Bretlands, hlýtur í ár rithöfundurinn Alan Hollingshorst fyrir bókina The Line of Beauty. Hún fjallar um samkynhneigðan lífsnautnasegg á stjórnarárum Margret Thatcher í Bretlandi. Í einu atriða bókarinnar dansar söguhetjan meira að segja við Thatcher uppfullur af eiturlyfjum og gjörsamlega út úr heiminum.

Börðu dóttur sína og systur

Írakskir feðgar voru handsamaðir í Ósló í gær þar sem þeir höfðu beitt tólf ára gamla stúlku ofbeldi. Feðgarnir, sem eru 36 og 20 ára gamlir og eru faðir og bróðir stúlkunnar, sættu sig ekki við að hún ætti orð við norska jafnaldra sína af gagnstæðu kyni. Þeir hugðust taka hana með sér til Íraks þar sem þeir höfðu fundið mannsefni fyrir hana.

Geðsjúks morðingja leitað

Geðsjúks morðingja er leitað í Linköping í Svíþjóð. Maðurinn, sem er um tvítugt, réðist á konu á sextugsaldri í gærmorgun og stakk hana til bana, eftir því sem talið er að ástæðulausu. Átta ára gamall drengur var skammt hjá og kallaði hann þegar í stað á hjálp. Morðinginn vatt sér því næst að drengnum og drap hann.

Viðurkennir samband en neitar öðru

Danski þingmaðurinn, sem var handtekinn í gær, viðurkennir ad hafa haft samband vid þrettán ára dreng á Internetinu, en neitar að hafa stundað kynlíf med honum. Danska lögreglan, sem nú yfirheyrir þingmanninn, telur ad hann hafi áður reynt ad setja sig í samband vid fleiri unga drengi og boðið þeim greiðslu fyrir kynlíf.

2 í gæsluvarðhald vegna morðs

Tveir menn á fertugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Danmörku til 11. nóvember, vegna morðs á leigubílstjóra á sunnudagskvöld. Við yfirheyrslur yfir mönnunum tveimur í gær kom fram að þeir verða í einangrun til annars nóvember.

Breytti nafninu í „hvalborgari"

Ungur norskur slátrari hefur fengið samþykkta breytingu á skírnarnafni sínu. Espen Scheide er slátrari í Þrándheimi, og nýlega rakst hann á síðu á netinu, þar sem hægt er að sækja um nafnbreytingu. Espen leist vel á það og heitir nú ekki lengur Espen, heldur Keikoburger.

Sambúð getur af sér drengi

Pör sem búa undir sama þaki á þeim tíma þegar barn er getið eru líklegri til að eignast stráka en pör sem ekki búa saman. Þetta kemur fram í nýrri bandarískri könnun sem virðist ótvírætt sýna að umhverfisaðstæður við getnað geti að einhverju leyti ákvarðað kyn barnsins.

Stöðva starfsemi vegna mannráns

Alþjóðlegu hjálparsamtökin Care International hafa ákveðið að stöðva alla starfsemi sína í Írak í kjölfar þess að öfgahópar rændu í gær Margaret Hassan, yfirmanni samtakanna í Írak. Arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera sýndi myndband af Hassan þar sem hún er með hendur bundnar aftur fyrir bak.

10 milljarða hækkun lífeyris

Lífeyrisskuldbindingar ríkisins hækka um 10 milljarða sé miðað við rúmlega 16 prósent hækkun dagvinnulauna kennara. Hækki laun kennara um 35 prósent á samningstímanum hækka lífeyrisskuldbindingar ríkisins um allt að 20 milljarða.

Bílbeltanotkun ábótavant

Bílbeltanotkun í hópbifreiðum og bílaleigubílum er verulega ábótavant að mati framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar umferðarslysa. Hann segir nauðsynlegt að fara af stað með sérstaka herferð þar sem brýnt er fyrir fólki að nota bílbelti í hópbiffreiðum. Aðeins þrír þeirra 48 sem voru í rútunni sem valt nálægt Hvalfjarðargöngunum í gær notuðust við bílbelti.

Lítil spilling á Íslandi

Ísland lendir enn og aftur á lista með þeim löndum heims sem þykja til fyrirmyndar hvað varðar heiðarleika og gagnsæi í stjórnkerfinu. Ísland og Danmörk deila þriðja til fjórða sætinu sem minnst spilltu lönd heims.

Allt að 92% kostnaðar í fræðslumál

Dæmi eru um að 92% af heildartekjum aðalsjóðs sveitarfélaga renni til fræðslumála. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar.

Kominn í skikkjuna

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur hafið störf við Hæstarétt. Hann hefur þegar hlýtt á munnlegan málflutning í þremur málum.

Vinnuvikan lengist enn

Vinnuvika hjá íslenskum karlmönnum heldur áfram að lengjast samkvæmt tölum Haggstofunnar. Þar kemur fram að á þriðja ársfjórðungi í ár hafi vinnuvikan verið að meðaltali tæpar 44 klukkustundir, en 48,7 klukustundir hjá körlum, hafi lengst um hátt í eina klukkustund frá sama tímabili í fyrra.

Eru ekki að skipta um skoðun

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær samhljóða tillögu þar sem skorað er á ríkisvaldið að efla tekjustofna sveitarfélaga. Þetta þýðir þó ekki að borgarstjórn telji að ríkisvaldið eigi að koma að lausn kennaradeilunnar, segir borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins.

Karlmenn þurfa líka að passa sig

Vakin er athygli á því á alþóðlega beinverndardeginum í dag, að beinþynning sé heilbrigðismál, sem karlmenn þurfa að gefa gaum ekki síður en konur. Samkvæmt nýjmum íslenskum rannsóknum má gera ráð fyrir að þriðji hver karlmaður um fimmtugt verði fyrir því að beinbrotna síðar á lífsleiðinni.

Ríkisstjórn segir af sér

Ríkisstjórn hins tyrkneska hluta Kýpur sagði af sér í gær eftir margra mánaða ólgu og í kjölfar þess að ekki náðist að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um sameiningu hinna tyrknesku og grísku hluta eyjarinnar.

Barroso heimsækir ESB þjóðir

Næsti formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, hitti forsætisráðherra Póllands í gær.

Kúluspil heiti ekki Hitler

Japönsk einkaleyfisstofa hefur bannað fyrirtæki að kalla kúluspil eftir Adolf Hitler, Móses og öðrum sögufrægum persónum.

Brotist inn í Hertz á Akureyri

Brotist var inn i bílaleigu Hertz við Akureyrarflugvöll um klukkan hálf fjögur í nótt, en viðvörunarkerfi fór í gang. Við það kom styggð að innbrotsþjófunum sem voru horfnir þegar lögreglan kom á vettvang, en klukkustund síðar handtóku þeir tvo menn, sem eru grunaðir um verknaðinn og er verið að yfirheyra þá.

Búið að gera við brúna

Vegagerðarmenn gerðu í morgun við brúna yfir Núpsvötn á hringveginum austan við Kirkjubæjarklaustur, eftir að hluti af nýrri málmklæðningu á brúargólfinu flettist upp í veðurofsanum í gærmorgun. Þjóðvegi eitt var þá lokað á milli Skeiðarár og Lómagnúps og var ekki opnaður fyrr en upp úr klukkan tíu í morgun.

Rækjuveiðar bannaðar

Rækjustofnarnir í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði virðast vera að hruni komnir og leggur Hafrannsóknastofnun til að allar rækjuveiðar á þessum svæðum verði bannaðar í vetur.

Falla fyrir peningum og völdum

Konur virðast liggja kylliflatar fyrir völdum og peningum þó að femínistar reyni að neita þeim þráláta áburði. Samkvæmt könnun, sem gerð var í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og Nettavisen greinir frá, hafði önnur hver kona sem svaraði átt í kynferðislegu sambandi við yfirboðara sinn og 28% prósent sögðust beinlínis vera til í það með æðsta yfirmanninum.

Fjölgar á Norðurlöndum

Í fyrsta sinn í mörg á fjölgar fæðingum á Norðurlöndum og eiga íslenskar konur drjúgan þátt í því. Á milli áránna 2002 og 2003 fjölgaði fæðingum mikið á Norðurlöndum og voru þær þó fleiri en annars staðar í Evrópu fyrir. Frjósamastar allra kvenna eru íslenskar konur, raunar svo frjósamar að árið 2003 settu þær Evrópumet, ef Færeyjar og Grænland eru undanskilin.

Túrbanabann í frönskum skólum

Síkar mega ekki ganga með túrbana í almenningsskólum í Frakklandi eftir að nýlegt bann við því að bera sýnileg trúartákn í skólum tók gildi, að því er menntamálaráðherra Frakka hefur úrskurðað.

Réðust inn á ritstjórnarskrifstofu

Þrír menn réðust inn á ritstjórnarskrifstofu DV, gripu einn blaðamann hálstaki og gerðu síðar tilraun til að bakka á annan blaðamann þegar þeir voru á leiðinni frá húsinu aftur. Mennirnir kröfðust þess að fá að tala við annan ritstjóra blaðsins en brugðust hinir æstustu við þegar þeim var sagt að hann væri ekki viðstaddur og þeir beðnir um að fara.

Foreldrar taki sér frí

Heimili og skóli - landssamtök foreldra hvetja foreldra grunnskólabarna til þess að sýna í verki samstöðu með börnum sínum og taka sér frí frá vinnu eftir hádegi á morgun. Samtökin hvetja einnig atvinnurekendur til að sýna foreldrum skilning og gefa þeim frí þennan eftirmiðdag svo foreldrar geti gert eitthvað uppbyggilegt með börnum sínum og unglingum.

Cheney óttast kjarnorkuárás

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna lét hafa eftir sér á fundi í gær að mögulegt væri að hryðjuverkamenn myndu nota kjarnorkuvopn á bandarískar borgir í framtíðinni og í ljósi slíkrar hættu væri John Kerry ekki rétti maðurinn til þess að hafa í embætti forseta um þessar mundir.

Fréttamenn gefa kennurum pening

Félag fréttamanna hefur gefið 220 þúsund krónur í verkfallssjóð kennara. Frá þessu er greint á heimasíðu Kennarasambandsins. Segir þar að borist hafi bréf frá Karli Eskil Pálssyni gjaldkera Félags fréttamanna þar sem tilkynnt er um styrkinn. Í félagi fréttamanna eru fréttamenn sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, útvarpi og sjónvarpi.

Sjá næstu 50 fréttir