Innlent

Ó­sam­mála um hvort lög­regla hafi gefið fyrir­mæli

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Elissa mætti fyrir dóm.
Elissa mætti fyrir dóm. Vísir/Anton Brink

„Þetta var síðasta úrræðið sem við gátum gripið til,“ sagði Elissa Philipps sem ákærð er fyrir húsbrot og að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu er hún dvaldi í hvalveiðiskipi 33 klukkustundir til að mótmæla hvalveiðum.

Atvikið átti sér stað 4. september 2023 þegar Elissa og Anahita Sahar fóru upp í tunnur í hvalveiðiskipunum Hvalur 8 og 9 til að mótmæla hvalveiðum.

Málið er tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og lýsir Elissa því fyrir dómnum að hún hafi gengið yfir Hval 9 til að komast í Hval 8 og klifrað þar upp mastrið. 

Dagana áður hafði hún mótmælt á höfninni og séð fjölda fara um borð í skipinu, bæði starfsfólk en einnig mótmælendur sem héldu á borða. Því hafi hún talið að ekki væri um lögbrot að ræða.

Afþakkaði boð lögreglunnar

Anahita var fyrst í skýrslustöku og tók Elissa undir orð hennar að þær hefðu ekki fengið nein skýr fyrirmæli frá lögreglu um að þær ættu að yfirgefa bátana.

„Það voru engin samskipti því þeir voru langt í burtu. Á einum tímapunkti voru þeir að reyna að taka eigur Anahitu af henni, þá kallaði slökkviliðsmaður til mín „þú ert næst“ og ég held hann hafi sagt líka „veistu ekki hver á þennan bát? þú ert komin í vandræði,“ segir Elissa.

Annar lögreglumaður hafi komið til hennar og hann boðið henni að fara niður, sem hún afþakkaði. Lögreglan hafi fyrst og fremst verið að athuga hvort að þær tvær væru öruggar.

Vissi að það yrðu afleiðingar

Lögreglumaðurinn sem ræddi við Elissu kom einnig fyrir dóm og þar sagðist hann hafa gert grein fyrir því að hún væri þarna í leyfisleysi og að framkvæma húsbrot. Elissa hafi skilið að hún væri þarna í leyfisleiti að hans mati.

Verjandi Elissu segir að miðað við upptökur af vettvangi hafi hún ekki fengið nein fyrirmæli. Lögreglumaðurinn segist hafa lýst því fyrir henni að hún hafi verið í tunnunni í leyfisleysi. Hann tekur fram að Elissa hafi verið afar kurteis allan tímann og þau hefðu getað talað saman.

Elissa segist vita að það yrðu einhverjar afleiðingar af málinu en hafði ekki gert sér grein fyrir því að málið myndi taka svo langan tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×