Lífið

Illugi Jökuls gómaði rottuunga eftir klukku­tíma eltinga­leik

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Unginn var í góðum höndum, eða kannski hönskum, eftir langan eltingaleik.
Unginn var í góðum höndum, eða kannski hönskum, eftir langan eltingaleik.

Lítill rottuungi slysaðist inn á tveggja katta heimili Illuga Jökulssonar fyrr í dag. Rottubjörgunarsveitin var kölluð út og eftir klukkutíma eltingaleik var unginn gómaður með mjúkum ofnhönskum og honum sleppt út í stórt blómabeð.

„Ef þið skylduð ekki hafa áttað ykkur á því, þá er ég rottubjörgunarsveitin,“ segir Illugi Jökulsson, rithöfundur og útvarpsmaður, í Facebook-færslu sem hann birti upp úr tvöleytinu. 

Hafði hann þó aðeins átt við færsluna því upphaflega taldi hann um litla mús að ræða, fróður vinur benti honum á að um Rattus norvegius væri að ræða.

Kettirnir tveir bíða færis.

„Pattaralegur rottuungi laumaðist inn í hús við Grettisgötuna til að leita sér að einhverju í áramótamatinn en áttaði sig of seint á því að í íbúðinni búa tveir kettir. Rottan tók það þjóðráð að fela sig undir ísskápnum og síðar lengi undir ýmsum ofnum heimilisins.“

„Þá var rottubjörgunarsveitin kölluð út og ég gómaði hana eftir samtals klukkutíma eltingarleik og bar hana út í góða veðrið með gömlum ofnahanska þar eð hún hneigðist til að bíta björgunarsveitina,“ skrifar hann.

Illugi segist hafa sleppt rottunni með dóttur sinni, Veru Illugadóttur, í stórt blómabeð þar í nágrenninu. Vonar hann að hún sé komin heim til sín að segja sínu fólki frá þeim ævintýrum sem hún lenti í.

Á leið út!

„Þetta verður góður kafli í Reykvískum húsamúsasögum, sbr. Íslendinga sögur. Fyrir hönd allrar dýrúðar þakka ég ykkur,“ skrifar Þórunn Jarla Valdimarsdóttir við færsluna.

„Slasaðist músin?“ spurði Kristján Atli Sævarsson í ummælum. 

„Nei, ég fór um hana mjúkum ofnahanskahöndum,“ svaraði Illugi þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.