Fótbolti

Sættir sig við dóm fyrir að deila kyn­ferðis­legu efni af táningum

Sindri Sverrisson skrifar
Andreas Schjelderup er í dag leikmaður Benfica í Portúgal en spilaði í Danmörku þegar hann braut af sér.
Andreas Schjelderup er í dag leikmaður Benfica í Portúgal en spilaði í Danmörku þegar hann braut af sér. Getty/Jose Breton

Andreas Schjelderup, landsliðsmaður Noregs í fótbolta og leikmaður Benfica í Portúgal, áfrýjaði ekki dómnum sem hann hlaut fyrir að deila myndbandi með kynferðislegu efni fólks sem var undir 18 ára aldri.

Schjelderup, sem verið hefur hluti af norska landsliðinu sem nýverið vann sig inn á HM í fyrsta sinn á þessari öld, var dæmdur sekur í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði.

Fyrir tveimur árum, þegar hann var sjálfur 19 ára gamall, leikmaður Nordsjælland í Danmörku, deildi hann áfram 27 sekúndna myndbandi á Snapchat þar sem sjá mátti einstaklinga undir 18 ára aldri í kynferðislegum athöfnum.

Schjelderup var dæmdur í fjórtán daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot sitt. Hann hafði sömuleiðis fjórtán daga frest til að ákveða hvort hann vildi áfrýja dómnum og nú er sá frestur runninn út.

Samkvæmt frétt NRK gæti saksóknari í Danmörku enn áfrýjað málinu en slíkt er þó ekki algengt í játningarmálum.

Dómari í málinu sagði að Schjelderup hefði fengið „gult spjald“ og að litið hefði verið til þess að hann hefði fengið myndbandið sent en ekki leitað það uppi sjálfur.

„Það skal ekki vera neitt leyndarmál að Andreas hefur harmað allt ferlið, eins og þið hafið heyrt. Það var lélegur brandari hjá honum að framsenda það. Hann eyddi því strax og hefur beðist afsökunar,“ sagði Anders Nemeth, lögmaður Schjelderup, eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Leikmaðurinn tjáði sig sjálfur á Instagram í byrjun nóvember og sagði þar: „Það sem ég gerði var ólöglegt. Ég býst við að verða dæmdur og fá skilorðsbundinn dóm.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×