Fótbolti

Nýja treyjan sem fylgja á Ís­landi inn á næsta stór­mót

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir í íslenska landsliðinu voru hressir þegar þeir stilltu sér upp í nýju treyjunni.
Strákarnir í íslenska landsliðinu voru hressir þegar þeir stilltu sér upp í nýju treyjunni. KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú kynnt nýjustu landsliðstreyju íslensku fótboltalandsliðanna.

Treyjan er sem fyrr úr smiðju Puma og er hún þegar komin í sölu, að minnsta kosti á FyrirÍsland.is og hjá Boltamanninum.

Stelpurnar okkar verða í nýju treyjunum í vor þegar þær freista þess að komast inn á HM í fyrsta sinn.KSÍ

Ljóst er að íslenska kvennalandsliðið mun skarta nýju treyjunni í þeirri krefjandi undankeppni sem fram undan er hjá liðinu fyrir HM 2027 í Brasilíu.

Stelpurnar okkar mæta heimsmeisturum Spánar, Evrópumeisturum Englands og Úkraínu í riðlakeppninni, sem fram fer frá mars og fram í júní, og er miðasala á heimaleikina hafin hjá KSÍ. Þær eiga svo öruggt sæti í umspili í framhaldinu, nema þeim takist að vinna riðilinn og komast beint á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

Lengra er í næstu mótsleiki hjá karlalandsliðinu sem rétt missti af sæti í HM-umspilinu sem fram fer í mars. Búast má við að liðið spili þá vináttulandsleiki en næstu mótsleikir verða svo í C-deild Þjóðadeildarinnar næsta haust sem dregið verður í snemma á næsta ári. Búast má við að sú keppni verði tengd við keppnina um að komast EM 2028 sem er næsta stórmót sem strákarnir okkar stefna á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×