Menning

Jón Ás­geirs­son tón­skáld er látinn

Agnar Már Másson skrifar
Tónsmiðurinn Jón Ásgeirsson var fæddur 1928.
Tónsmiðurinn Jón Ásgeirsson var fæddur 1928. Aðsend

Eitt ástsælasta tónskáld Íslands, Jón Ásgeirsson, er látinn 97 ára að aldri. Tónsmiðurinn samdi meðal annars fyrstu íslensku óperuna og einnig lagið undir Maístjörnuna.

Fjölskylda hans greinir frá andláti tónskáldsins, sem lést á hjúkrunarheimilinu Eir í gær, 21. nóvember.

Jón er fæddur á Ísafirði 1928 en hann lagði stund við tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík, síðan framhaldsnám við Konunglega skoska háskólann í Glasgow og svo Guildhall School of Music í London.

Maístjarnan og Þrymskviða

Jón samdi fjölda tónverka en líklega er hann einna þekktastur fyrir söngtónlist sína. Einsöngslög hans eru um níutíu talsins en þar er að finna margar söngperlur eins og Hjá lygnri móði, Vor hinsti dagur, Augun mín og augun þín, og svo Maístjörnuna sem var upprunalega ljóð eftir Halldór Laxness.

Eftir Jón liggja einnig fjöld kammarverka, 6 konsertar, ballett og óperur. Óperan Þrymskviðu, sem frumflutt var 1974 í Þjóðleikhúsinu og var fyrsta íslenska óperan í fullri lengd.

Jón sótti efnivið til íslenskra þjóðlaga í verkum sínum, Þjóðvísu, Lilju og Fornum dönsum, en eftir hann liggja ótal þjóðlagaútsetningar ýmist fyrir hljóðfærahópa eða kóra, og hafa kórútsetningar hans öðlast sérstakan sess meðal íslenskra kórbókmennta.

Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu

Auk tónsmíða stundaði Jón kennslustörf, lengst af við Kennaraháskóla Íslands og Söngskólann í Reykjavík. Hann skrifaði talsvert um tónlist og var tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil. Hann stjórnaði kórum og lúðrasveitum, Sinfóníuhljómsveit Íslands í eigin verkum og samdi fyrir leikhús, útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og heimildarmyndir.

Jón hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hlaut tvisvar menningarverðlaun DV, árið 1979 fyrir ballettinn Blindisleik og árið 1997 fyrir óperuna Galdra-Loft. Hann var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur 1996 og sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu lista og menningar 2001.

Jón Ásgeirsson var skipaður prófessor í tónlist við Kennaraháskóla Íslands árið 1996, og varð þar með fyrsti prófessorinn í listgreinum á Íslandi. Árið 2008 veitti Kennaraháskóli Íslands Jóni doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir mikilvægt framlag hans til kennaramenntunar á sviði tónlistar og tónlistaruppeldis í skólum landsins.

Elísabet Þorgeirsdóttir eiginkona Jóns lést 2013. Börn Jóns og Elísabetar eru Þorgeir 1955, Arnþór 1957 og Guðrún Jóhanna 1966. Barnabörnin eru fjögur og eitt barnabarnabarn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.