Íslenski boltinn

Bretinn ráðinn tækni­legur ráð­gjafi hjá Val

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gareth Owen er nýr tæknilegur ráðgjafi hjá knattspyrnudeild Vals.
Gareth Owen er nýr tæknilegur ráðgjafi hjá knattspyrnudeild Vals. X/@coachgarethowen

Gareth Owen hefur verið ráðinn sem tæknilegur ráðgjafi hjá Val í fótbolta. Hann mun hafa yfirumsjón með fótboltatengdum málum hjá félaginu. Owen yfirgefur Fram til að taka við starfinu.

Owen hefur starfað fyrir Fram undanfarin tvö ár sem yfirmaður markmannsþjálfunar og verið markmannsþjálfari meistaraflokks í Úlfarsárdal. Áður starfaði hann hjá Gróttu hérlendis en hefur einnig unnið fyrir Chelsea á Englandi og velska knattspyrnusambandið, FAW.

Greint var frá því á Vísi fyrir um mánuði síðan að hann myndi færa sig um set til Vals og vera þar yfirmaður knattspyrnumála en hann mun bera starfstitilinn tæknilegur ráðgjafi (e. technical director)

„Sem tæknilegur ráðgjafi Vals er Gareth fyrst og fremst ætlað að leiða langtímastefnu knattspyrnudeildar og innleiðingu á henni. Líkt og fram hefur komið hefur verið vinna í gangi með sænska ráðgjafarfyrirtækinu GoalUnit þar sem horft er til framtíðar og verður eitt af fyrstu verkum nýs tæknilegs ráðgjafa að kynna þá framtíðarsýn fyrir félagsfólki,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Vals um ráðninguna sem má sjá að neðan.

Valsmenn leita enn þjálfara fyrir meistaraflokk karla eftir að Srdjan Tufegdzic var sagt upp störfum í byrjun vikunnar. Hauki Páli Sigurðssyni, aðstoðarþjálfara, og Kjartani Sturlusyni, markmannsþjálfara, var einnig sagt upp störfum og mun Owen eflaust koma að því að finna nýtt teymi.

Hermann Hreiðarsson hefur verið orðaður við þjálfarastarfið, en hann stýrði HK í Lengjudeildinni í fyrra. Chris Brazell er einnig orðaður við aðstoðarþjálfarastarfið.

Karlalið Vals lenti í öðru sæti í Bestu deild karla og hlaut silfur í Mjólkurbikarnum.

Kvennalið Vals átti sitt versta tímabil í áraraðir og hafnaði í 6. sæti Bestu deildar kvenna.

Yfirlýsing Vals:

Gareth Owen ráðinn tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Vals

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna um ráðningu Gareth Owen sem nýs tæknilegs ráðgjafa (Technical Director) Knattspyrnudeildar Vals.

Gareth er með UEFA A þjálfaragráðu, UEFA A markmannsþjálfaragráðu auk þess að hafa lokið meistaragráðu í afreksþjálfun í knattspyrnu (MSc in Performance Football Coaching). Þá býr Garreth sem er frá Wales yfir víðtækri alþjóðlegri reynslu og hefur byggt upp nokkuð farsælan feril innan afreksumhverfa í fótbolta – bæði sem leikmaður og þjálfari.

Áður en hann hóf þjálfaraferil sinn lék Gareth sem markvörður með Swansea City og Sheffield United, auk þess sem hann lék fyrir landslið Wales í U16, U17 og U19.

Síðustu fjögur ár hefur hann starfað á Íslandi þar sem hann hefur getið sér góðs orðs fyrir uppbyggingu afreksstarfs og þróun leikmanna.

Gareth hefur einnig gegnt áhrifamiklum hlutverkum hjá stórum félögum og stofnunum á borð við Chelsea FC og Knattspyrnusamband Wales (FAW). Hjá Chelsea hafði hann umsjón með leikmannamenntun og samfélagsverkefnum víða um heim – í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum – þar sem hann vann að því að efla alþjóðlegt þjálfunarumhverfi félagsins.

Á Íslandi hefur Gareth starfað sem aðstoðarþjálfari og yfirmaður markmannsþjálfunar hjá Gróttu og síðast hjá Fram, þar sem hann var hluti af þjálfarateymi meistaraflokks karla síðustu tvö tímabil.

Sem tæknilegur ráðgjafi Vals er Gareth fyrst og fremst ætlað að leiða langtímastefnu knattspyrnudeildar og innleiðingu á henni. Líkt og fram hefur komið hefur verið vinna í gangi með sænska ráðgjafarfyrirtækinu GoalUnit þar sem horft er til framtíðar og verður eitt af fyrstu verkum nýs tæknilegs ráðgjafa að kynna þá framtíðarsýn fyrir félagsfólki.

Garreth mun hefja störf þann 1. nóvember n.k.

Frábær að vinna með ungum leikmönnum

„Við réðum Arnór Smárason í svipað starf í upphafi síðast tímabils en hann flutti til Svíþjóðar á miðju tímabili og vinnur nú fyrir kvennalið Hammarby. Við ákváðum síðan að taka okkur tíma í að finna rétta aðilann og aðeins þróa starfið. Gareth hefur sýnt það, sértaklega hjá Fram, að hann er mjög fær í að ná í unga leikmenn og gera þá betri. Hann er þrælmenntaður og hefur svipaða sýn á fótbolta og við í stjórn og er meðvitaður um hvert við viljum komast. Okkur hlakkar mikið til samvinnunnar,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.

Valur er félag sem getur orðið stórt – ekki bara á Íslandi

„Valur hefur auðvitað sterka sögu og er eitt af stóru félögunum á Íslandi og hefur alla burði til þess að verða stórt félag út fyrir landsteinana. Ég hef búið á Íslandi í nokkur ár og náð góðum tengslum við íslenskan fótbolta. Eftir samtöl sem ég átti við forsvarmenn Vals fann ég samhjóm og ég upplifi metnaðarfulla framtíðarsýn og mikla möguleika til vaxtar. Ég hlakka til að vinna með frábæru fólki innan félagsins, stuðla að áframhaldandi fagmennsku og leggja mitt af mörkum til að efla bæði leikmenn og þjálfara. Ég elska Ísland, var að kaupa mér íbúð og er byrjaður að læra íslensku, svo skemmir ekki fyrir að kærastan mín er mikill valsari,“ segir Gareth Owen nýráðinn tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×