Veður

Nýtt snjódýptarmet í Reykja­vík í októ­ber

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur, mældi snjódýpt í mælareit Veðurstofunnar á Bústaðavegi í morgun.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur, mældi snjódýpt í mælareit Veðurstofunnar á Bústaðavegi í morgun. Veðurstofan

Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, mældi nýtt met í snjódýpt í mælareit Veðurstofunnar á Bústaðavegi klukkan níu í morgun. Nýtt met fyrir snjódýpt í Reykjavík í október er nú 40 sentímetrar og bættust þannig þrettán sentímetrar við það met sem slegið var í gær þegar snjódýptin var mæld 27 sentímetrar.

Það er þá mesta snjódýpt sem mælst hefur í höfuðborginni í október frá upphafi mælinga árið 1921.

Fyrra októbermet í Reykjavík var 15 sentímetrar, mælt þann 22. október 1921. Næstmest mældist 13 sentímetrar þann 8. október 2013. Að jafnaði er hins vegar lítill sem enginn snjór í Reykjavík í október og samkvæmt viðmiðunartímabilinu 1991–2020 eru að meðaltali engir alhvítir dagar í mánuðinum.

Um 44 sentímetra snjódýpt í Urriðaholti í Garðabæ í gær. Guðrún Fjóla Guðnadóttir

Til samanburðar má nefna að mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík yfir árið allt var 55 sentímetrar þann 18. janúar 1937 og 51 sentímetrar þann 26. febrúar 2017, þegar borgarbúar vöknuðu við óvenjulegan sunnudagsmorgun með jafnfallinn snjó eftir nótt af mikilli ofankomu.

Á Keflavíkurflugvelli mældist snjódýptin í gær 18 sentímetrar, en þar hefur mest mælst 25 sentímetrar í október, þann 29. október 2005.

Jarþrúður Ósk Jóhannesdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar, við mælingar í gærmorgun. Veðurstofa Íslands / Haukur Hauksson.

Snjódýptarmælingar eru framkvæmdar daglega kl að morgni, bæði í Reykjavík og á öðrum mælistöðvum landsins.

Fjöldi fólks sendi inn snjódýptarmælingar á veðurvakt Vísi í gær. Guðrún Fjóla Guðnadóttir mældi til dæmis 44 sentímetra rétt fyrir klukkan 16 í gær og þá mældist á svipuðum tíma 47/48 sentímetra snjódýpt í Garðabæ og 43 sentímetra snjódýpt í Breiðholti. 

42 sentímetra snjódýpt mældist í Grafaholti í gær. Aðsend

Sigríður Magnea segir í samtali við fréttastofu að Veðurstofan noti staðlaðar aðferðir til að mæla snjódýpt. Á Bústaðavegi séu tíu mælar og 40 sentímetra dýpt sé meðaltal þeirra. Það geti vel verið að snjódýptin hafi verið meiri annars staðar. Til dæmis sé ekki mjög skjólsælt á Bústaðaveginum en snjódýptin hafi auðveldlega getað verið meiri í görðum þar sem var mikið skjól.


Tengdar fréttir

Mesta snjódýpt í Reykjavík sem mælst hefur í október

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Bliku segir aðstæður teiknast upp á verri veg á Suðurnesjum en áætlað hafi verið. Hann segir snjódýpt líka óvenjulega í Reykjavík svo snemma vetrar og líklega um met að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×