Enski boltinn

Sonur Stuart Pearce lést í slysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuart Pearce átti flottan fótboltaferil og var þekktur fyrir að gefa ekkert eftir inn á vellinum.
Stuart Pearce átti flottan fótboltaferil og var þekktur fyrir að gefa ekkert eftir inn á vellinum. EPA/ADAM VAUGHAN

Sonur Stuart Pearce, fyrrverandi knattspyrnumanns enska landsliðsins, lést á dögunum í dráttarvélaslysi.

Harley Pearce var aðeins 21 árs gamall en slysið varð í Gloucestershire í síðustu viku, að sögn lögreglu.

Fjölskylda Harley hefur sent frá sér minningarorð um hann: „Fjölskyldu okkar er sannarlega brugðið og við erum gjörsamlega niðurbrotin yfir missi okkar ástkæra sonar og trygga bróður, Harley.“

Slysið varð á Old Birdlip Hill, á A417-veginum, í Witcombe, nálægt Gloucester, klukkan 14:30 að breskum sumartíma á fimmtudag. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Fjölskylda Harleys lýsti honum sem „gullnum dreng með smitandi bros“.

„Sál sem skildi eftir sig ógleymanleg spor hjá öllum sem þekktu hann. Þessi átakanlegi harmleikur mun skilja eftir sig stórt skarð í hjörtum þeirra sem voru svo lánsamir að hafa þekkt hann,“ sagði ennfremur í minningarorðunum.

„Með sínum hægláta, hlédræga styrk og djúpu góðvild erum við svo stolt af þeim unga manni sem hann var orðinn, en hann sýndi frábært vinnusiðferði og frumkvöðlaanda í landbúnaði.

„Hann verður alltaf okkar skærasta stjarna. Hvíl í friði, fallegi sonur okkar og bróðir. Þín verður aldrei nokkurn tíma gleymt.“

Stuart Pearce lék á sínum tíma 78 landsleiki fyrir England á árunum 1987 til 1999. Hann lék stærsta hluta ferilsins s´ns með Nottingham Forest.

Hann fékk viðurnefnið „Psycho“ eða „Sá klikkaði“ fyrir óvæginn leikstíl sinn en hann lék vel finna fyrir sér inn á vellinum.

Pearce reyndi líka fyrir sér sem knattspyrnustjóri og þjálfari en það gekk ekki eins vel og leikmannaferillinn.

Harley var annar af tveimur börnum hans og Liz eiginkonu hans í þrjátíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×