Innlent

Síðasti fuglinn floginn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Flugvélin átti að fara til Tenerife á mánudagsmorgun en komst aldrei úr landi.
Flugvélin átti að fara til Tenerife á mánudagsmorgun en komst aldrei úr landi. Vísir/MHH

Síðasta flugvélin merkt flugfélaginu Play er farin úr landi og stefnir nú til Noregs. Vélin er í eigu kínversks félags og átti hún að standa á vellinum þar til útistandandi skuldir Play yrðu greiddar. 

Flugvélin, sem er í eigu China Aircraft Leasing Group Holdings Limited (CALC), var kyrrsett í kjölfar gjaldþrots Play í síðustu viku og hefur staðið yfirgefin á Keflavíkurflugvelli síðan.

Sjá nánar: Óljóst hvort Kínverjarnir geti sótt vélina sína

Í kjölfar gjaldþrots Play greindi Isavia frá að útistandandi viðskiptaskuldir Play næmu ágúst- og septembermánuðum og hygðust þau leita ráða til að innheimta skuldirnar. Nokkrum dögum síðar breytti Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra reglum um afskráningu loftfara. Til þess að hægt væri að fljúga flugvélinni á ný þyrfti að liggja fyrir staðfesting á að flugvallagjöldin hafi verið greidd.

Því mætti ætla að einhver hafi greitt skuldir flugfélagsins en samkvæmt skriflegu svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hvílir enn lögveð á flugvélinni samkvæmt loftferðarlögum.

„Eigandi vélarinnar óskaði eftir brottfararleyfi sem Isavia varð við þar sem ekki var mögulegt að uppfylla skilyrði til stöðvunar samkvæmt loftferðarlögum,“ segir Guðjón.

Skjáskot af flugleið vélarinnar. Hún lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli klukkan hálf eitt í dag. FlightRadar

Flugvélin fór frá Íslandi rétt eftir hálf eitt.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×