Sport

Dahlmeier látin en ó­mögu­legt að ná líki hennar af fjallinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laura Dahlmeier með Ólympíugullið sem hún vann á vetrarleiknunum í Pyeongchang-gun í Suður Kóreu árið 2018.
Laura Dahlmeier með Ólympíugullið sem hún vann á vetrarleiknunum í Pyeongchang-gun í Suður Kóreu árið 2018. Getty/Michel Cottin

Þýska skíðaskotfimidrottningin og Ólympíumeistarinn Laura Dahlmeier fannst látin í dag eftir að hafa orðið fyrir grjóthruni í fjallgöngu í Pakistan. 

Dahlmeier var að klifra erfiða og tæknilega klifurleið upp Laila Peak í 5.700 metra hæð í Karakoram fjöllunum í Pakistan þegar skriða hrundi yfir hana.  Dahlmeier var að fara niður, líklega til að sækja farangur eftir erfitt klifur, þegar slysið varð.

Eva var klifurfélagi hennar í þessari ferð. Hún sagði að grjótið hefði hrifsað Dahlmeier með sér og hún hefði misst sjónar á henni.

Það var strax kölluð út björgunarsveit með reynda heimamenn með í för en það gekk mjög illa að komast til hennar.

Fresta þurfti tilraunum vegna myrkurs en þá hafði þyrla fundið hana og séð að hún var augljóslega mikið slösuð.

Mikill vindur, lítið skyggni og mjög erfiðar aðstæður í mikilli hæð gerðu þetta að mjög erfiðri björgunaraðgerð. 

Slysið varð á mánudaginn en leitarmenn hafa ekki enn komist til hennar. Hún hafði sjálf skrifað undir það í erfðaskrá sinni að enginn ætti að hætta lífi sínu til að bjarga henni.  ZDF segir frá.

Það er komið endanlega í ljós að Dahlmeier er látin. Á meðan aðstæður eru svona slæmar á fjallinu verður lík hennar látið vera þar sem það er niðurkomið. Vonandi tekst að ná því síðar. Það er líka mjög erfitt að ná í líkið vegna áframhaldandi berghruns sem myndi setja björgunarfólk í hættu.

Dahlmeier var vanur fjallamaður og með réttindi sem leiðsögumaður í fjallgöngum. Hún er frá Garmisch-Partenkirchen í þýsku Ölpunum og þekkti því vel til að klífa fjöll.

Dahlmeier vann tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikum og sjö gullverðlaun á heimsmeistaramótum. Hún vann alls fimmtán verðlaun á HM á ferlinum. Árið 2019 setti hún skíðin upp á hillu.

Ólympíugullin sín vann hún á Vetrarleikunum í Pyeongchang í Suður Kóreu árið 2018, í 7,5 kílómetra sprettgöngu og í 10 kílómetra eltigöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×