Gríðarlegur fjöldi fólks leggur leið sína í gegnum Piccadilly Circus í London á hverjum degi og eru risa stór auglýsingaskiltin einkennandi fyrir London. Þá hefur sömuleiðis verið vinsælt hjá ferðamönnum að taka myndir af sér þar og eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að auglýsa sig á stóru skjánum.
Hins vegar stendur til að hægja á öllu í byrjun október. Samkvæmt breska tímaritinu Guardian á listaverk Ólafs að hægja á ofurhraða auglýsinganna. Þar sem vanalega eru skýrar og áberandi auglýsingar fyrirtækjarisa kemur óskýrt myndbands listaverk frá Ólafi sem heitir Lifeworld.
Í samtali við Guardian segir Ólafur að listsköpunin sé viljandi óskýr og sé algjör andstæða kapitalískra hugmynda auglýsingaskiltanna.
„Það sem ég er að hugsa út í er almenningsrýmið. Þetta snýst ekki um að banna auglýsingaskiltin. Óskýra myndin er tilraun til þess að ná til fólks og segja: Hér er eitthvað fallegt. Þetta snýst um að hægja á sér. Þetta snýst um berskjöldun og þetta snýst um hið ólínulaga,“ segir Ólafur.

Lifeworld ferðast sömuleiðis heimshorna á milli á auglýsingaskilti vinsælla almenningsstaða. Til Suður Kóreu á K-Pop torgið í Seoul, Kurfürstendamm í Berlín og Times Square í New York í samvinnu við samtökin Circa.
Hvert myndbandsverk er einstakt og sýnir myndbönd frá hverjum stað, nema auðvitað í óskýrri mynd þar sem áhorfendum er boðið að „líta inn á við og sjá hvern stað frá nýju sjónarhorni“.

Ólafur segir Times Square torgið svakalegt.
„Torgið fyllist af fólki á miðnætti. Þetta er mjög áhugavert rými. Það örvar sannarlega skilningarvitin en er mjög yfirþyrmandi á sama tíma. Spurningin er hvort það örvi okkur almenninga eða hvort það dragi frekar úr orkunni okkar.
Ég held að þetta óskýra myndbandsverk mitt sé nánari lýsing á raunveruleikanum en það sem við sjáum vanalega á skjánum. Verkið gefur þér pláss til að staldra við. Mér finnst það frekar öflug mýkt,“ segir hann.
Ólafur Elíasson hefur sem áður segir tekið þátt í ýmsum stórum og spennandi verkefnum. Verkið hans Weather Project þar sem mátti líta á risastóra „sól“ var sýnt í Tate Modern og er áætlað að um tvær milljónir hafi séð það.
Sömuleiðis má sjá Ólaf dansa í stúdíóinu sínu í Berlín í nýju tónlistarmyndbandi hjá heimsfræga plötusnúðinum Peggy Gou. Ólafur var break-dansari á sínum yngri árum og leyfir þeirri listrænu hlið að njóta sín í myndbandinu sem má sjá hér: