Menning

Kanónur með list­ræna þrennu á Flat­eyri

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hrafnhildur Arnardóttir/Shoplifter og Hrafnkell Sigurðsson verða með sýningaropnun á Flateyri um helgina.
Hrafnhildur Arnardóttir/Shoplifter og Hrafnkell Sigurðsson verða með sýningaropnun á Flateyri um helgina. Vísir/Vilhelm

Menningarlífið iðar á Vestfjörðum en þrír þekktir myndlistarmenn opna sýningar á verkum sínum á Flateyri næstkomandi laugardag og eru sýningarnar opnar öllum. Listamennirnir eru Hrafnhildur Arnardóttir, jafnan þekkt sem Shoplifter, Hrafnkell Sigurðsson og Kristján Björn Þórðarson.

Hrafnhildur eða Shoplifter hefur sýnt um allan heim og verið með einkasýningar á ýmsum stórum söfnum. Hún hefur löngum verið starfrækt í New York og unnið náið með stórstjörnunni Björk Guðmundsdóttur. Hún opnar sýningu sína Gátt/Portal í galleríinu Undir brúnni klukkan 16:00 á laugardag.

„Undir brúnni er líklega eitt minnsta gallerí landsins og staðsett, eins og nafnið bendir til, utandyra undir gamalli steyptri brú á Sólbakka, rétt innan við Flateyri. Brúin var reist 1930 og um hana var eina akstursleiðin til Flateyrar og frá, þar til 1983 þegar hún var aflögð,“segir í fréttatilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að hugmyndin að þessu óvenjulega galleríi komi frá myndlistarmanninum Finni Arnari.

„Finnur Arnar setti einmitt upp fyrstu sýninguna undir brúnni sumarið 2022 sem bar nafnið Now / Then. Þema gallerísins er að sýna eitt verk undir brúnni árlega, að sumarlagi, og sá háttur er hafður á að listamaður hvers árs velji þann næsta.

Finnur Arnar tilnefndi Hrafnkel Sigurðsson sem setti upp verk sitt Innhverfingar / Inversions undir brúnni sumarið 2023 en Hrafnkell var einmitt valinn Myndlistarmaður ársins 2023. Sú innsetning myndar grunninn að þeim verkum sem Hrafnkell sýnir í gömlu slökkvistöðinni á Flateyri í ár. Hrafnkell valdi svo Hrafnhildi Arnardóttur til að sýna undir brúnni þetta sumarið.“

Verk Hrafnkels frá því í fyrra Undir brúnni.Aðsend

Kristján Björn Þórðarson opnar síðan innsetningu sína Endurlit / Reminiscence í Takinum á Sólbakka klukkan 16:30 á laugardag og klukkan 17:00 opnar Hrafnkell Sigurðsson sýninguna Innhverfingar / Inversions í gömlu slökkvistöðinni á Brimnesvegi.

Tankurinn þar sem Kristján Björn mun sýna.Aðsend

Sýning Hrafnkels verður opin til og með 21. júlí, sýning Kristjáns Björns verður opin til og með 6. ágúst og sýning Shoplifter undir brúnni mun standa út sumarið.

Hrafnhildur og Hrafnkell voru viðmælendur í Vísisþættinum Kúnst síðastliðið haust en þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×