Erlent

Ræða að veita vöxtum af frystum eignum Rússa til Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Slökkviliðsmenn berjast við eld í fjölbýlishúsi í Kænugarði í morgun. Á myndinni sést gígur sem myndaðist í árásum Rússa í nótt.
Slökkviliðsmenn berjast við eld í fjölbýlishúsi í Kænugarði í morgun. Á myndinni sést gígur sem myndaðist í árásum Rússa í nótt. AP/Vadim Ghirda

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins munu funda í Brussel í dag en á dagskránni verða meðal annars umdeildar hugmyndir um að veita vöxtum af frystum eignum Rússa til Úkraínu.

„Nú þegar við stöndum frammi fyrir mestu öryggisógninni síðan í seinni heimstyrjöldinni er tími til að taka róttæk og ákveðin skref til að efla varnir okkar og undirbúa efnahag Evrópusambandsins fyrir stríð,“ sagði Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í bréfi til leiðtoganna fyrir fundinn.

Vandræðagangur vestanhafs hvað varðar fjárveitingar til Úkraínu er meðal þess sem hefur vakið Evrópubúa til aukinnar meðvitunar um heldur bága stöðu varnarmála í álfunni og nauðsyn þess að auka fjárframlög til málaflokksins og styðja Úkraínumenn gegn ásækni Rússa.

Michel sagði aukin hernaðaraðstoð til Úkraínu eitt brýnasta málið sem leiðtogarnir þyrftu að ná saman um.

Leiðtogarnir munu einnig ræða útgáfu „varnarskuldabréfa“ til að fjármagna aukna fjárfestingu í varnarmálum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti er meðal stuðningsmanna skuldabréfanna en Holland og Finnland hafa sett sig upp á móti sameiginlegri skuldsetningu sem gæti komið niður á skattgreiðendum í marga áratugi.

Það hefur einnig verið lagt til að aðildarríkin skuldbindi sig til að leggja tvö prósent af vergri landsframleiðslu til að efla varnir Evrópu. Samanlögð gæti upphæðin náð 80 milljörðum evra.

Guardian hefur eftir heimildarmönnum að sú leið að nýta vexti af frystum eignum Rússa til að styðja við Úkraínumenn sé afar erfið í útfærslu lagalega séð og stjórnvöld í Rússlandi segja það myndu fela í sér „fordæmalaust brot á alþjóðalögum“.

Nokkur ríki eru engu að síður sögð velta því alvarlega fyrir sér hvort mögulega væri hægt að ganga á höfðstól eignanna, ekki bara vextina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×