Innlent

Vís­bendingar um að kvikusöfnun sé hafin á ný

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofunni, segir að sérfræðingar fylgist vel með stöðunni í dag og næstu daga. Enn gjósi en að því gæti lokið á næstu dögum. 
Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofunni, segir að sérfræðingar fylgist vel með stöðunni í dag og næstu daga. Enn gjósi en að því gæti lokið á næstu dögum.  Vísir/Einar

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofunni, segir það ekki koma á óvart ef eldgosinu, sem hófst á laugardag, lýkur á næstu sólarhringum.

„Ég held þetta sé dagaspursmál,“ segir Kristín og að starfsmenn Veðurstofu haldi áfram að fylgjast með gögnunum. Það séu vísbendingar um að kvikusöfnun sé hafin aftur við Svartsengi en að þau eigi eftir að fylgjast betur með næstu daga til að staðfesta það.

„Staðan er bara frekar svipuð má segja og í gærkvöldi. Gosið heldur áfram. Það hefur aðeins dregið úr því og virknin að mestu bundin við eitt svæði,“ sagði Kristín í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hún segir að sunnan til séu að myndast gígar og þar sé mesta virknin. Hraunið renni þaðan í suðurátt, en mjög hægt. Kristín segir enn um 100 metra í að hraunið nái Suðurstrandarveginum.

„Það er smá kraftur í þessu ennþá,“ segir Kristín en að það hafi dregið mikið úr og að gosið sé í raun að haga sér eins og fyrri gos síðustu mánuði. Það sem sé nýtt í þessu gosi sé að hraun rennur bæði til suðurs og vesturs og að það sé vegna þess að hraunið kemur upp aðeins sunnar en áður.

„Þessi kvikugangur er á óheppilegu svæði. Það er stutt til Grindavíkur og þessi nálægð við Svartsengi. Það er alltaf mikið í húfi,“ segir Kristín. Það sé magnað og öflugt að sjá hvernig varnargarðarnir beini hrauninu frá og hvernig þeir hafi virkað.

Hún segir gasmengun við gígana og af hraunbreiðunni og að fólk þurfi að fylgjast með því. Það eigi samt að draga úr því eftir því sem að það dregur úr gosinu.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Kristínu hér að neðan.


Tengdar fréttir

Stór skjálfti í Bárðarbungu

Jarðskjálfti upp á 4,4 stig reið yfir í öskjunni í Bárðabungu þegar klukkuna vantaði fimmtán mínútur í eitt í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×