Innlent

Hraunið rennur hratt og stefnir á Suður­stranda­rveg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frá gosstöðvunum í kvöld.
Frá gosstöðvunum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson sviðsstjóri hjá Almannavörnum segir að hrauntungurnar tvær frá gosinu við Grindavík valdi mönnum áhyggjum. Stutt er í að hraun renni bæði yfir Grindavíkur- og Suðurstrandaveg.

„Þetta er sennilega að minnsta kosti jafn stórt ef ekki stærra en þau gos sem hafa verið stærst hingað til. Við erum með mikið hraunrennsli í tvær áttir,“ sagði Víðir Reynisson í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

„Annars vegar er hraunrennsli sem rennur svipað eins og gerðist í febrúar og á mjög stutt eftir í Grindavíkurveginn. Síðan er hin tungan sem er stærri og fer lengra og hún rennur í suður og er komin að varnargörðunum sem eru austan megin við Grindavík.“

Hann segir að síðarnefnda hrauntungan stefni á Suðurstrandaveginn og að hann giski á að hún eigi um kílómeter eftir að veginum.

„Hún rennur meðfram þeim og stefnir á Suðurstrandaveginn. Næstu innviðir sem eru í hættu eru Grindavíkurvegurinn og Suðurstrandavegurinn. Við erum ekki með þyrluna á loftinu í augnablikinu. Það sem við sáum áðan þá var það kannski kílómeter og hraunið rennur mjög hratt.“

Víðir segir að þyrla Landhelgisgæslunnar fari í loftið aftur á eftir þegar búið sé að fara yfir stöðu mála.

„Það er bara verið að taka eldsneyti og undirbúa næsta flug. Vísindamenn eru að fara yfir stöðuna og gefa skýrslur áður en þeir fara aftur í loftið.“

Þá segir hann að gossprungan virðist ekki hafa lengst en að magn kviku valdi áhyggjum.

„Talan er um þrír kílómetrar og ég hef ekki heyrt að hún hafi lengst. Magnið sem kemur upp er það mikið og þessar tvær hrauntungur eru að valda okkur áhyggjum.“

Í vefmyndavélinni hér fyrir neðan sést hrauntungan sem stefnir í átt að varnargörðum austan við Grindavík.

Hér má svo sjá vefmyndavél sem snýr að Grindavíkurvegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×