Innlent

Ríkið gerir kröfu til túna í Borgar­firði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þau eru falleg túnin í Borgarfirði en svo virðist sem heiti þeirra eða örnefni hafi ráðið því að tvö þeirra rötuðu í kröfugerð ríkisins.
Þau eru falleg túnin í Borgarfirði en svo virðist sem heiti þeirra eða örnefni hafi ráðið því að tvö þeirra rötuðu í kröfugerð ríkisins. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðuneytið hefur gert kröfu til „hólma“ langt inni í landi í kröfugerð sinni um þjóðlendur á svæði 12, sem nær til eyja og skerja til Íslands.

Kröfugerðin hefur vakið mikla reiði en í henni er meðal annars gerð krafa til hluta Heimaeyjar og nær allra eyja og skerja á Breiðafirði, svo eitthvað sé nefnt. Sönnunarbyrðin er lögð á eigendur umræddra eiga, sem þurfa að gera mótkröfu og sanna eignarhald sitt.

Krafan til umrædds „hólma“ kemur þó sérstakleg á óvart en um er að ræða ellefu hektara tún í miðjum Norðurárdal í Borgarfirði.

„Þetta er eins fá­rán­legt og mest má vera. Það var ekki annað en hægt að hlæja í fyrstu en svo er ég bara fjúk­andi reið yfir því að svona mis­tök séu gerð,“ hefur Morgunblaðið eftir Þór­hild­i Þor­steins­dótt­ir bóndi á Brekku í Borg­ar­f­irði.

Hún segir ríkið ekki aðeins hafa gert kröfu um umrætt tún, sem ber heitið Kerlingarhólmi, heldur einnig annað tún sem ber heitið Hólsey og er enn lengra inni í dal.

„Nú er það svo að ríkið er búið að lýsa kröfu í þenn­an tún­bleðil okk­ar. Ef kröfu­gerðin í þenn­an ágæta hólma er les­in þá geta all­ir sem eru svona sæmi­lega viti born­ir og þokka­lega les­andi séð að hann er ekki ná­lægt neinu fjöru­borði og það gæt­ir alls ekki neinna sjáv­ar­falla. Vissu­lega get­ur Norðurá verið stór­streym­is fljót stund­um en fjand­inn hafi það. Hvers kon­ar vinnu­brögð eru þetta?“ spyr Þórhildur á Facebook.

Morgunblaðið segir málið í skoðun í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×