Lífið

Keypti 600 Bónus­poka og gerði úr þeim lista­verk um fá­tækt

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sæmundur segir að hann hafi lengi velt því fyrir sér hvers vegna fátækt fái að þrífast í samfélaginu.
Sæmundur segir að hann hafi lengi velt því fyrir sér hvers vegna fátækt fái að þrífast í samfélaginu.

Sæmundur Þór Helgason opnaði nýverið Af hverju er Ísland svona fátækt? í Nýlistasafninu. Hann segir að sýningunni sé „sú fegraða ímynd sem Ísland kynnir gjarnan út á við dregin í efa með því að varpa ljósi á ólíkar upplifanir mismunandi fólks í landinu.“

Fagurfræði sýningarinnar er innblásin af grafísku auðkenni matvöruverslunarinnar Bónus sem upphaflega var stofnuð til að tryggja viðskiptavinum sínum lægsta mögulega matvöruverð á Íslandi. Í innsetningu sinni þekur Sæmundur glugga Nýlistasafnsins með bónus pokum í reglubundnu mynstri sem umbreytir einnig birtu sýningarrýmisins.

Á sama tíma er flatskjáum dreift um rýmið þar sem má sjá myndbönd af viðtölum sem Sæmundur Þór tók í aðdraganda jóla í Kringlunni þar sem þátttakendur voru spurðir um fátækt. Flatskjáirnir eru reistir með bleikum stál rörum í anda innréttinga bónus.

„Mig langaði til að finna sýningarumgjörð sem myndi efnisgera fátækt á ódýran hátt. Mér fannst Bónus vera tákn þeirra minni á Íslandi. Verslunin var brauðryðjandi á sínum tíma hvað varðar verðlag,“ segir Sæmundur Þór.

Hann segir að hann hafi ekki spurt leyfis eða haft neitt samráð við verslunina áður en hann notaði logo-ið þeirra í sýninguna.

„Ég keypti bara 600 poka fyrir um 30 þúsund krónur. Krakkarnir sem afgreiddu mig voru spennt og vildu vita hvað ég ætlaði að gera við þá. Þetta var svo mikið magn. Ég sagði þeim að þetta væri fyrir myndlistarverk. En ég talaði ekki við verslunina því ég vildi ekki fá leyfi. Ég þurfti ekkert leyfi til að kaupa mér poka og gera verk úr þeim.“

Vann sjálfur í Bónus

Sæmundur Þór segist sjálfur hafa reynslu úr Bónus því hann hafi starfað þar sem unglingur. Hann hafi hugsað um að hafa samband við einn sem enn starfi þar í dag en hafi svo ákveðið að sleppa því.

„Ég ákvað bara að gera þetta svona frekar. Sem almennur viðskiptavinur,“ segir hann en að hann vonist til þess að aðstandendur verslunarinnar komi á sýninguna.

„Það eru standar fyrir vídjóverkin sem þau hefðu kannski áhuga á að sjá.“

Sæmundur Þór segir að viðmælendur hafi verið valdir eru af handahófi.

„Þeir gerðu stutt hlé á jóla innkaupunum til að leggja orð í belg. Gangar Kringlunnar voru á sama tíma hátíðlega skreyttir og sjá um að viðhalda stöðugum straumi varnings og verslunar.“

Skjáirnir eru festir á bleikar súlur í stíl við bleikt svíns-logo Bónus.Mynd/Sæmundur Þór

„Það eru þrír skjáir með svörum við þremur ólíkum spurningum,“ segir Sæmundur en spurningarnar eru Hvað er fátækt, Er fátækt á Íslandi og hvers vegna ekki og sú síðasta er Hvernig getur Ísland risið upp úr fátækt.

Spurður hvort að hann hafi merkt eitthvað sameiginlegt í svörum fólks segir Sæmundur að fólk hafi þar túlkað fátækt sem einhvers konar skort á lífsgæðum.

„Fjárhagsleg eða félagsleg eða heilsufarsleg lífsgæði. Sumir sögðu líka að einsemd væri fátækt. Að eiga enga ástvini að.“

Hvað varðar aðra spurninguna segir Sæmundur Þór að flest svörin hafi snúið að samkennd.

„Það skorti einhvers konar samkennd eða samheldni.“

Barnaleg en stuðandi spurning

Sæmundur Þór segist hafa fengið boð fyrir nokkrum mánuðum að sýna í Nýlistasafninu

„Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fátækt þrífst í okkar samfélagi. Á sama tíma og það er lítið er það mjög dreifbýlt. En ég skil það ekki. Þetta er þannig innlegg í þá umræðu. En á sama tíma kannski barnaleg spurning. Þær eru settar upp á dálítið naív og stuðandi hátt,“ segir Sæmundur Þór og að hann hafi langað að gera heiðarlega rannsókn.

„Verkið er þannig á mörkum einhvers konar fréttamennsku, félagsvísinda og listar,“ segir Sæmundur Þór.

Hann segir að þegar enn þrífist fátækt á Íslandi sé greinilegt að ekki sé vilji hjá stjórnvöldum til að breyta því.

„Það líka segir mér að við nýtum okkur kerfi sem þarfnast fátæktar og þeirra arðrændu til þess að virka.“

Hefur þú upplifað fátækt?

„Já, ég get sagt það. Flest mín fullorðinsár hef ég lifað undir lágmarkstekjum. Ég fékk reyndar listamannalaun í fyrra sem gjörbreyttu þeim aðstæðum. En já, ég þekki það á eigin skinni hvernig er að ná ekki endum saman og hvaða áhrif það hefur á allar ákvarðanir. Hvernig maður forgangsraðar.“

Verk Sæmundar er hægt að skoða í Nýlistasafninu þar til 3. mars. Eins og má sjá á myndinni eru Bónus-pokar í gluggum safnsins.

Hann segir þessa sýningu beint framhald af sýningu sem hann hélt í Hafnarhúsinu árið 2016.

„Þá fékk ég þóknun frá listasafninu upp á 120 þúsund krónur sem átti að vera launin mín og fyrir efniskostnað. Ég tók þessa upphæð og fór í alla banksins og fékk fjármálaráðgjöf um það hvernig ég gæti ávaxtað þessum peningum og lifað á þeim til framtíðar,“ segir Sæmundur Þór og að í því hafi falist ákveðin mótmæli á þessum aðstæðum og kjörum sem honum voru þarna boðin.

„Sýningin hét Ávöxtun og skapaði umtal í samfélaginu.“

Fleiri verk til sýningar

Ásamt verki Sæmundar eru til sýnis verk úr safneign Nýlistasafnsins sem hafa verið gaumgæfilega valin út frá þeim svörum sem fengust í viðtölunum. Á sýningunni eru þau skoðuð út frá hugmyndum um auð og misskiptingu hans í samtíma samfélagi. Verkin eru til marks um að málefnið eigi sér djúpar rætur í þjóðarsálinni þrátt fyrir að ímyndarsköpun landsins kunni að gefa annað í skyn.

Listafólk: Ásta Ólafsdóttir, Bjarki Bragason, Daði Guðbjörnsson, Erling Klingenberg, Geoffrey Hendricks, G.Erla, Hildur Hákonardóttir, Íris Elfa Friðriksdóttir, John Cage, Niels Hafstein, Rúna Þorkelsdóttir, Snorri Ásmundsson, Steingrímur Eyfjörð, Sæmundur Þór Helgason, Wiola Ujazdowska.

Sýningarstjóri er Odda Júlía Snorradóttir.

Grafísk hönnun: Gabríel Markan

Kvikmyndataka: Arnar Ásgeirsson

Framleiðandi: Odda Júlía Snorradóttir

Tónlist: Magnus Moone

Járnsmíði: Helgi Þór Jónsson

Sérstakar þakkir: Brianna Leatherbury

og Hrafnhildur Helgadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×