Innlent

Í­hugar for­seta­fram­boð af al­vöru

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jón segist ekki munu taka endanlega ákvörðun um mögulegt forsetaframboð fyrr en að lokinni frumsýningu á leikverkinu sem hann æfir nú á Akureyri. Verkið er frumsýnt síðar í þessum mánuði.
Jón segist ekki munu taka endanlega ákvörðun um mögulegt forsetaframboð fyrr en að lokinni frumsýningu á leikverkinu sem hann æfir nú á Akureyri. Verkið er frumsýnt síðar í þessum mánuði. Vísir/Vilhelm

Jón Gnarr, grínisti, leikari, rithöfundur og fyrrverandi borgarstjóri, veltir því fyrir sér af alvöru að fara í forsetaframboð. 

Þetta kemur fram í viðtali við Jón á Akureyri.net. Hann er staddur á Akureyri þar sem hann leikur í leikverkinu And Björk of course, eftir Þorvald Þorsteinsson. Verkið er sett upp af Menningarfélagi Akureyrar og verður frumsýnt síðar í mánuðinum.

Í þeim hluta viðtalsins þar sem farið er út í forsetasálmana segist Jón telja að hann yrði „fínn forseti.“ Á hverjum degi fái hann tölvupósta, skilaboð eða tögg um forsetaframboð. 

„Ég hafði aldrei pælt í því að vera forseti, en árið 2016, þegar Guðni var kosinn fyrst var fólk að stinga upp á mér og ég tók þetta alvarlega. Ræddi það við konuna mína. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði ekki að fara í framboð. Núna kemur þetta aftur upp og ég get sagt að ég er að hugsa þetta af alvöru,“ segir Jón í viðtalinu.

Hann ætli þó ekki að taka ákvörðun fyrr en búið verði að frumsýna verkið, þann 23. febrúar. 

„Það, að hinir og þessir á samfélagsmiðlum, sem fylgja mér, telji að ég eigi að vera forseti, þá er ég ekkert viss um að það sé almennt það sem fólk í landinu er að pæla,“ segir Jón við Akureyri.net. Hann taki því einfaldlega sem hæfilegri vísbendingu. 

Síðu Besta flokksins breytt

Í síðasta mánuði greindi Vísir frá því að Facebook-síða Besta flokksins, sem hefur ekki verið starfandi um nokkurra ára skeið, hefði verið uppfærð með framboðslegri mynd af Jóni, sem leiddi lista flokksins í borginni árið 2010 og var borgarstjóri undir merkjum hans í eitt kjörtímabil.  

Þá sagðist Jón ekki vita hver hefði breytt forsíðu- og opnumyndum síðunnar í mynd af Jóni. 

Hann væri á kafi í leikritsæfingum og hefði ekki haft tíma til að taka ákvarðanir eða gefa eitthvað svar. Þó útilokaði hann ekkert.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×