Lífið

„Mamma er að fara að deyja“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mæðgurnar Anja og Linda nýttu sér báðar þjónustu Krafts.
Mæðgurnar Anja og Linda nýttu sér báðar þjónustu Krafts. Kraftur

Anja var tólf ára gömul þegar móðir hennar, Linda Sæberg, greindist með brjóstakrabbamein. Anja var hrædd um að móðir hennar væri dauðvona. Linda fór í aðgerð, lyfja- og geislameðferð og Anja var eins mikið hjá henni og hún gat í ferlinu.

„Ég man bara eftir því að vakna um morguninn, og er að koma fram í stofu, og þá situr sem sagt mamma í sófanum og segir: „Anja komdu ég þarf að tala við þig.“ Hvað er að gerast?“ segir Anja, en mæðgurnar deildu sögu sinni fyrir átakið Lífið er núna, sem stendur yfir þessa dagana.

„Svo fæ ég bara að frétta það að mamma mín er með brjóstakrabbamein. Fyrsta hugsunin mín var náttúrulega bara: „Mamma er að fara að deyja. Þetta er bara búið. Hvað á ég að gera? Hvað á hún að gera? Hvað eigum við að gera?““ segir Anja.

Linda segir að dóttir hennar hafi þekkt sig of vel til að hún gæti þagað yfir greiningunni. „Hún þekkir mig það vel að ég vissi það að ég gæti ekki farið í gegnum marga daga vitandi þetta.“

Linda hefur nú klárað fimm ára eftirlitið og segist vera búin með þennan kafla í lífinu. Anja og Linda nýttu sér báðar þjónustu Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Fjáröflunarátak Krafts stendur nú yfir. Kraftur vekur athygli á málefninu í átakinu og selur Lífið er núna armbönd sem eru perluð af sjálfboðaliðum víða um land.

Fimmtudaginn 8. febrúar hvetur Kraftur landsmenn alla að halda upp á Lífið er núna-daginn og staldra við og njóta líðandi stundar með fólkinu í kringum sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×