Innlent

Engin kvika sést síðan klukkan eitt í nótt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Engin kvika hefur sést koma upp úr gossprungunum norðan Grindavíkur síðan rétt eftir klukkan eitt í nótt. Þessi mynd var tekin síðdegis í gær og má þarna sjá örlitla kviku gægjast undan storknuðu hrauni.
Engin kvika hefur sést koma upp úr gossprungunum norðan Grindavíkur síðan rétt eftir klukkan eitt í nótt. Þessi mynd var tekin síðdegis í gær og má þarna sjá örlitla kviku gægjast undan storknuðu hrauni. Vísir/Arnar

Engin kvika hefur sést koma upp úr sprungunum norðan Grindavíkur síðan klukkan 1:08 í nótt. Vakthafandi náttúruvársérfræðingur segir eldgosið virðast hafa fjarað alveg út.

„Síðast sá ég kviku koma upp átta mínútur yfir eitt. Ég hef ekki orðið vör við neitt koma upp á yfirborðið síðan,“ segir Elísabet Pálmadóttir, vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Hún segir gosið virðast hafa fjarað út, staðan verði þó endurmetin í birtingu og á daglegum fundi vísindamanna klukkan 9:30. Enn mælist stöðug smákjálftavirkni á svæðinu, þó jarðskjálftum fari fækkandi, og segir Elísabet jörðina í Grindavík hafa gengið mjög til síðustu daga. 

„Það dró hægt og rólega úr þessu í gær og eftir miðnætti kom upp kvika í nokkrum spýjum og svo ekkert eftir 1:08,“ segir Elísabet. 

„Það eru margar nýjar sprungur í Grindavík. Lögreglan hafði einmitt samband við mig í nótt. Þá höfðu þeir verið að fljúga yfir með dróna og taka myndir af nýjum og stækkandi sprungum. Þetta er bara hrikalegt.“

Jörð hefur gengið mikið til í Grindavík síðustu daga. Hér má sjá malbik, sem hefur afmyndast, í götu nyrst í Grindavík.Vísir/Arnar

Innt eftir því hvort til standi að kortleggja sprungurnar í Grindavík segir hún að ef það verði gert muni Landmælingar líklega sjá um verkið.

„Ég hef heyrt einhverja umræðu um það óopinberlega en ég veit ekki hvenær eða hvernig á að gera þetta. Nú er svæðið síbreytilegt. Það koma nýjar og nýjar sprungur, aðrar sprungur stækka og færa sig til. Það er spurning hvenær það verður gert, kannski þegar verður óhætt.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×