Lífið

Kimmel hótar Rod­gers lög­sókn fyrir um­mæli um Ep­stein-listann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kimmel segir Rodgers hafa sett fjölskyldu sína í hættu með ummælum sínum.
Kimmel segir Rodgers hafa sett fjölskyldu sína í hættu með ummælum sínum. Getty

Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel hefur hótað lögsókn á hendur Aaron Rodgers, leikstjórnanda New York Jets, eftir að síðarnefndi gaf það í skyn að nafn Kimmel yrði að finna á margumræddum „vinalista“ kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein.

„Það á að birta hann bráðlega,“ sagði Rodgers um listann á The Pat McAfee Show í gær. „Það er hellingur af fólki, þeirra á meðal Jimmy Kimmel, sem eru að vona að hann verði ekki birtur.“

Kimmel birti brot úr fyrrnefndum þætti á X, áður Twitter, og neitaði ásökununum.

„Kæri fáviti... til að það sé skýrt; ég hvorki hitti, flaug með, heimsótti né átti í neinum samskiptum við Epstein né munt þú finna nafn mitt á neinum „lista“ öðrum en þeirri vitleysu sem mjúk-heila klikkhausar á borð við þig geta ekki aðgreint frá raunveruleikanum,“ sagði Kimmel.

Hann sagði ummæli Rodgers stofna fjölskyldu sinni í hættu og hótaði málaferlum ef hann héldi staðhæfingum sínum til streitu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kimmel og Rodgers deila en spjallþáttastjórnandinn hefur meðal annars gert grín að leikstjórnandanum fyrir afstöðu hans til bólusetninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×