Innlent

Fannar þakkar fyrir skjót við­brögð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fannar Jónasson segir fréttirnar vera mjög ánægjulegar.
Fannar Jónasson segir fréttirnar vera mjög ánægjulegar. Vísir/Arnar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi að samhugur væri í ríkisstjórninni varðandi byggingu varnargarða við Grindavík og að undirbúningur hans væri þegar hafinn. Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir þetta vera ánægjulegar fréttir.

Bæjarstjórn Grindavíkur ályktaði á dögunum um það að senda ríkisstjórninni hvatningu til að flýta byggingu varnargarða við bæinn. Hann sagði framkvæmdina vera lífsnauðsynlegt fyrir Grindavík og þjóðina alla í viðtali við Vísi í gær.

Í samtali við fréttastofu segist Fannar Grindvíkínga vera þakkláta fyrir skjót viðbrögð dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar. „Það var brugðist mjög vel við. Þetta eykur öryggi okkar í Grindavík, bæði íbúanna og fyrirtækjanna,“ segir Fannar í samtali við Vísi í dag.

„Það skiptir verulega máli vegna þess að upptök gossins sem hófst 18. desember var mjög óþægilega nærri bænum og tiltölulega stutt að þéttbýlinu hjá okkur. Þannig ef það kemur gos á svipuðum slóðum aftur eða sunnar þá myndi þetta geta varið byggðina og þess vegna er það svona mikilvægt að koma þessu af stað,“ segir Fannar.

Hann segir jafnframt að þó að framkvæmdin muni taka langan tíma og jafnvel marga mánuði muni koma að því að varnargarðurinn muni veita Grindvíkingum skjól. Hann tekur fram að öryggistilfinningin sem það veitir bæjarbúum einnig vera mikilvæg.

„Auðvitað tekur sinn tíma að koma þessum garði upp í endanlegu formi. En þegar þar að kemur þá verður þetta örugglega til þess að okkur líði betur og vonumst þá til þess auðvitað að það verði ekki gos en þetta er góður skjöldur þarna fyrir norðan bæinn,“ segir Fannar að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×