Lífið

Vopnuð ná­granna­kona réðst á Charli­e Sheen

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Charlie Sheen varð fyrir líkamsárás í vikunni.
Charlie Sheen varð fyrir líkamsárás í vikunni. Andrew Burton/Getty

Bandaríski leikarinn Charlie Sheen varð fyrir líkamsárás á heimili sínu í vikunni. Kona á fimmtugsaldri hefur verið handtekin vegna málsins. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Sheen hafi orðið fyrir árásinni á heimili sínu í Malibu í Los Angeles í Bandaríkjunum á miðvikudag. Sjúkralið var kallað á vettvang en að endingu hafi Sheen ekki verið talinn þurfa aðhlynningu á sjúkrahúsi. 

Kona að nafni Electra Schrock, 47 ára, hefur verið handtekin vegna málsins. Schrock er nágranni Sheen, samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Lögregla hefur ekki greint frá því hvað bjó að baki árásinni en segir hana hafa notað vopn til verknaðarins. Þó hefur ekki fengist upplýst um hvers konar vopn hún notaði.

Hún er sögð hafa ruðst inn á heimili Sheen þegar hann kom til dyra, veist að honum, rifið skyrtuna sem hann klæddist og reynt að kyrkja hann.

Sheen, sem er 58 ára, er þekktur fyrir leik í stórmyndum, meðal annars Platoon, Wall Street og Major League. Hann gerði garðinn þó sennilega hvað frægastan fyrir leik í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Two and a Half Men, hvar hann fór með hlutverk kvensama glaumgosans Charlie Harper. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×