Innlent

Hjól at­vinnu­lífsins á fullu í Skaga­firði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, sem er mjög stoltur af héraðinu og Skagfirðingum almennt.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, sem er mjög stoltur af héraðinu og Skagfirðingum almennt. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Skagafirði og verða áfram á nýju ári en þar má nefna stækkun sundlaugarinnar á Sauðárkróki, bygging nýs leikskóla í Varmahlíð, endurbætur á grunnskólanum á Hofsósi og stækkun á höfninni á Sauðárkróki svo eitthvað sé nefnt.

Hjól atvinnulífsins í Skagafirði snúast hratt um þessar mundir því það er allsstaðar svo mikið að gera og mörg spennandi verkefni í pípunum. Á sama tíma fjölgar íbúum í sveitarfélaginu en þeir eru í dag rúmlega fjögur þúsund og fjögur hundruð en alls hefur fjölgað um tæplega 100 íbúa á árinu, sem er að líða.

Sveitarstjórinn, Sigfús Ingi Sigfússon er að vonum ánægður með allra framkvæmdirnar sem eru í gangi eða eru að fara í gang.

„Já, það er margt fram undan á næsta ári, bæði af hálfu okkar sveitarfélagsins í framkvæmdum og einnig annarra aðila. Stórar framkvæmdir á næsta ári eru sundlaugin á Sauðárkróki, framkvæmdir við nýjan leikskóla í Varmahlíð, endurbætur á grunnskólanum á Hofsósi, stækkun á höfninni á Sauðárkróki og stækkun á verknámshúsinu, þannig að það er margt fram undan,” segir Sigfús Ingi.

Það hlýtur að vera gaman að vera sveitarstjóri í svona flottu sveitarfélagi eða hvað?

„Það er mjög gaman. Ég er mjög stoltur af héraðinu og Skagfirðingum almennt, þetta er bara mjög góður staður að búa á.”

Það er engin lognmolla í atvinnulífinu á Sauðárkróki eða á öðrum þéttbýlisstöðum í Skagafirði.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað segir Sigfús að sé best við sveitarfélagið að hans mati ?

„Ég held að það sé mannlífið, hér er mjög gott og samheldið og þétt mannlíf. Við tökum öllum, bæði gestum og þeim, sem vilja dvelja hér lengur opnum örmum,” segir Sigfús Ingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×