Innlent

For­viða yfir því að enginn hafi stöðvað út­breiðslu lúsarinnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fiskar með sár eftir laxalús í kvíum í Tálknafirði.
Fiskar með sár eftir laxalús í kvíum í Tálknafirði. Veiga Grétarsdóttir

Fyrrverandi prófessor í velferð fiska segist aldrei hafa séð eins sára laxa eftir lús og þá sem eru í kvíum Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði. Hann segist forviða yfir því að ekki hafi verið brugðist fyrr við.

Líkt og fjallað var um í kvöldfréttum í gær hefur um milljón fiskum verið slátrað eða fargað vegna laxalúsafaraldurs í sjókvíum Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði. Myndefni sem kayakræðarinn Veiga Grétarsdóttir tók af fiskunum fyrir viku síðan sýnir kvíarnar fullar af annað hvort lúsétnum eða dauðum fiskum.

Lúsafaraldurinn hefur vakið athygli erlendis og fjallaði The Guardian ítarlega um hann í morgun.

Trygve Poppe, fyrrverandi prófessor í velferð fiska, segir fiskana á myndunum í kvíunum í Tálknafirði vera við dauðans dyr vegna lúsarinnar. Hann segist aldrei hafa séð svo sundurétna fiska í svo miklu magni áður.

„Þetta eru mjög slæmir og útbreiddir áverkar. Ég myndi segja að þetta væri lokastig laxalúsaplágu þar sem lýsnar éta allt roðið af haus og hnakka fisksins. Svo, já, þessir fiskar þjást greinilega og þeir hljóta að hafa þjáðst býsna lengi að mínu viti því þetta eru útbreidd sár sem eru mjög langt gengin,“ segir Poppe. 

Trygve Poppe hefur starfað í kringum velferð fiska nánast allt sitt líf.Vísir

Það kemur honum á óvart að norskir eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafi leyft lúsinni að breiðast svona út. Þeir eigi að vita betur.

„Þeir eiga sannarlega að hafa reynslu og þekkingu á því hvernig á að meðhöndla laxalús. Þetta á að vera vel þekkt vandamál hjá norskum fiskeldismönnum sem hafa komið sér fyrir á Vestfjörðum. Ég er undrandi á umfanginu og að einhver skyldi leyfa þessu að gerast. Þetta er mjög alvarlegt brot á dýravelferðarreglum,“ segir Trygve. 


Tengdar fréttir

Vill stjórnendur laxeldisfyrirtækja í fangelsi

Um milljón lúsugum löxum hefur verið slátrað eða þeir drepist í sjókvíum í Tálknafirði. Talsmaður náttúruverndarsamtaka segir útilokað annað en að fiskarnir þjáist miðað við núverandi rekstrarfyrirkomulag. Hann kallar stjórnendur fyrirtækjanna glæpamenn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×