Ragnar hlaut í sumar tilnefningu til Prix Pictet verðlaunanna, en þau eru sögð virtustu verðlaun sem veitt eru fyrir ljósmyndun. Verðlaunin voru veitt í gær og hreppti indverski ljósmyndarinn Gauri Gill hnossið.

Opnunarathöfn ljósmyndasýningar ljósmyndaranna tólf sem tilnefndir voru fór fram í kvöld. Ragnar sýnir ljósmyndir úr myndröðinni Where The World is Melting. Myndirnar voru teknar á Íslandi, Grænlandi og Síberíu.
Ragnar sagði tilnefninguna mikinn heiður í samtali við fréttastofu í sumar. „Þetta er ákveðið statement um að maður sé að gera eitthvað af viti,“ sagði hann.

Sýningin á Victoria and Albert safninu stendur yfir til 22. október næstkomandi. Þá færist sýningin á Red Cross safnið í Genf í Sviss og verður þar fram í apríl á næsta ári.
RAX á yfir fjörutíu ára feril að baki í faginu og er hvergi nærri hættur. Hann starfaði lengi sem ljósmyndari Morgunblaðsins auk þess sem hann hefur gefið út samtals átta ljósmyndabækur. Ljósmyndir RAX hafa verið birtar í tímaritum á borð við Life, Newsweek, Stern, National geograpic og Time.

Nú vinnur hann að nýrri ljósmyndabók- og sýningu þar sem hann hefur ferðast um heimskautalöndin og tekið myndir. Hann segir markmið verkefnisins vera að vekja athygli á heimskautalöndunum í tengslum við loftslagsmál og mismunandi lifnaðarhætti íbúa heimskautalandanna.
Í þáttunum RAX augnablik sem sýndir eru á Vísi og Stöð 2 Maraþon segir Ragnar sögurnar á bak við ógleymanlegar ljósmyndir sínar. Þættina má nálgast hér.