Lífið

„Það var eins og eitt­hvað hefði sprungið inni í mér“

Íris Hauksdóttir skrifar
Unnur Ösp Stefánsdóttir flytur einleikinn Saknaðarilm í Þjóðleikhúsinu síðar í vetur.
Unnur Ösp Stefánsdóttir flytur einleikinn Saknaðarilm í Þjóðleikhúsinu síðar í vetur. Vilhelm/Vísir

Blaðakona dinglar árangurslaust á dyrabjöllu við fallegt einbýlishús í Garðabæ. Eftir kurteist bank lætur viðmælandinn á sér kræla. Unnur Ösp Stefánsdóttir hefur í svo mörgu öðru að snúast að það hefur setið á hakanum að skipta um bilaða dyrabjöllu. Blaðakona tengir enda með sama vandamál, blessuð bilaða dyrabjallan.

Unnur hefur frá útskrift skapað sér sess sem ein færasta leikkona þjóðarinnar. Hún snarar sér, að því er virðist, óþægilega auðveldlega í hverskyns líki og nær að fanga fjölskrúðugar persónur á milli þess sem hún leikstýrir fjölmennum sem og fáliðuðum leiksýningum sem vekja áhuga og athygli landsmanna.

Unnur Ösp á fallegu heimili sínu í Garðabæ.Vilhelm/Vísir

Við fáum okkur kaffi og hellum okkur beint á dýptina.

Unnur er um þessar mundir að leggja lokahönd á handrit byggt á skáldsögunum, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda, eftir Elísabetu Jökulsdóttir. Handritið mun öðlast líf í Kassa Þjóðleikhússins í upphafi árs 2024 og verður í formi einleiks, leiknum af Unni sjálfri. Leikstjórn er í höndum eiginmannsins, Björns Thors en þrjú ár eru nú síðan þau hjónin settu á svið sýninguna Vertu Úlfur sem naut gríðarlegra vinsælda.

Handritið spratt fram á lyklaborðinu

„Bókin Saknaðarilmur kom út fyrir tæpu ári og er því svo að segja fun heit úr prentaranum,” segir Unnur og heldur áfram. „Ég hafði ekki lesið Aprílsólarkulda sem fékk íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2020 en þegar ég opnaði þá bók, var eins og eitthvað hefði sprungið inni í mér. Ég tók umsvifalaust upp tölvuna og hófst handa við skriftir. Ég fann að hugurinn og tilfinningalífið tók yfir. Þessar tvær bækur eru grunnurinn að verkinu sem ber titil seinni bókarinnar, Saknaðarilmur.“

Umfjöllunarefnið snýr að tengslum og tengslaleysi við foreldra. „Í Aprílsólarkulda hefur ung stúlka misst föður sinn og upphefst ansi tryllt ferðalag hennar þar sem hún stendur í raun í miðju áfalli. Í Saknaðarilmi hefur svo fullorðin kona misst móður sína. 

Ég fann strax að það yrði spennandi að tengja þessar tvær sögur í eitt allsherjar uppgjör persónu við foreldra sína og ekki síst sjálfa sig. Í kjölfarið helltist innblásturinn yfir mig eins og náttúruafl og handritið spratt fram á lyklaborðinu.“

Sprengir upp tabú

Unnur segir Elísabetu einkar gjöfula og kröftuga skáldkonu og lýsir texta hennar sem ríkum og draumkenndum.

„Hún hefur það fram yfir marga höfunda að hún berskjaldar sig gersamlega í bókunum sínum. Hún er örlát á að fjalla um hluti sem flestum finnst erfitt að tala um, eins og erfið tengsl við foreldra. Hún sprengir upp tabú. Bækurnar eru svo hlaðnar af ljóðrænu, húmor, hraða og sprengikrafti sem heillar mann.“

Unnur ásamt skáldkonunni Elísabetu Jökulsdóttir sem gaf henni fullkomið frelsi við gerð leikverksins.aðsend

Undir niðri ólga flækjur og áföll

Unnur segist mikill aðdáandi skáldkonunnar.

„Ég hef alltaf lesið Elísabetu. Hún hefur oft á tíðum verið frekar myrk og mögulega óaðgengileg sumum en í þessum nýjustu skáldsögum er komið meira jarðsamband og auðveldara finnst mér að tengja við innihaldið. Efnið er framandi og kunnuglegt á sama augnablikinu. Nístandi sársauki og leiftrandi húmor í sömu setningu. Þetta er umfjöllunarefni sem ég held að allir geti tengt við. 

Óttinn við að missa sína nánustu, uppgjör við erfið tengsl. Þakklæti fyrir ástina og svo að horfast í augu við skömmina sem við þekkjum mörg. 

Við eyðum svo miklum tíma í að reyna að vera fín og flott og vera með rétta ímynd út á við en undir niðri ólga allskonar flækjur og reynsla sem við reynum kannski að bæla niður.

 Þessi erfiða reynsla hefur oft áhrif á öll okkar samskipti og því er mikilvægt að reyna að vinna úr henni.

Það er merkilegt að það er eins og áföllin okkar brjótist fram aftur og aftur ef við vinnum ekki með þau. Þau triggerast við nýjar aðstæður og við getum aldrei losnað undan fortíð okkar.

Elísabet sýnir gríðarlegt hugrekki með tilraun sinni að gera upp hluti í gegnum skáldskapinn sem óbærilega erfitt er að stíga inn í. Verkið er ekki um framandi heim heldur hluti sem er nálægt okkur öllum. Við ættum að geta speglað okkur auðveldlega í mörgum þáttum sögunnar þrátt fyrir að hún sé myrk á köflum. Ég hef þá trú að leikhúsið geti heilað reynslu sem við höfum gengið í gegnum og hjálpað okkur að eiga krefjandi samtal við okkur sjálf. 

Mér finnst áhugavert þegar talað er um „trigger warnings“ í listum því ég vil triggera. 

Það þarf alls ekki að skiljast á neikvæðan hátt. Þvert á móti. Mér finnst listir eigi að hreyfa við fólki og vera á hættulegum stað. Elísabet er til að mynda flink í að draga fram húmor í þjáningunni. Ég vil helst verða fyrir líkamlegum áhrifum í leikhúsi, upplifa sterkar tilfinningar og vera önnur eftir reynsluna. Hafa lært eitthvað um sjálfa mig og samfélagið.“

Unnur segir óútskýranlegan kraft hafa farið um sig við skrif á handriti verksins. aðsend

Vanari að vera við stjórnvölinn

Hvernig gekk að skrifa handritið?

„Það var einhver kraftur sem fór í gegnum mig. Hausinn tók frí og tilfinningarnar og innblásturinn tóku yfir. Ég brenn bókstaflega fyrir því að segja þessa sögu. Mér finnst hún mikilvæg, áhrifarík og einstök. Ég fór á fund hjá leikhúsinu og ástæðan fyrir því að þetta gerist svona hratt er af því að bækurnar eru magnaðar. 

Ég vildi strax draga listræna stjórnendur inn í samtalið og hefja undirbúning. Og við Björn skiptum nú um hlutverk. Hann fer út í sal. Þetta er auðvitað áframhaldandi samtal um hluti sem okkur hjónum eru hjartfólgnir. Við höfum bæði ríkan áhuga á því hvernig reynsla og áföll geta mótað okkur sem manneskjur. Mér finnst spennandi að nú stýri hann verkinu. 

Einleikurinn Saknaðarilmur mun öðlast líf í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í ársbyrjun 2024.aðsend
Ég lærði það í heimsfaraldrinum að sleppa tökunum. Reyna ekki að stýra hlutum of mikið. Við vorum öll í frjálsu falli, á tímum þar sem ekkert var hægt að áætla og sem listamanni fannst mér það eftir á að hyggja mjög hollt. 

Við erum alltaf að stefna að lokaniðurstöðu í leikhúsinu en á tímum óvissu var það ekki hægt. Það krafði mann um að sleppa alveg tökunum og setja sig í samfélagslegt þjónustuhlutverk. Reyna að hugga samfélag í áfalli. Í því leyndist ákveðinn galdur. 

Við listafólk þurftum að finna nýjar leiðir. Við fórum á elliheimili og sungum, fluttum ljóð fyrir einn í einu og lékum einleik fyrir hálfum sal þar sem allir sátu með grímu á andlitinu. Þetta var stórmerkileg reynsla sem ég ætla að reyna að nýta mér áfram í sköpunarferli, þetta æðruleysi.“

Ólöf Arnaldsdóttir og Skúli Sverrisson eru nýliðarnir sem bætast við teymið sem áður kom að uppsetningunni Vertu Úlfur. Elín Hansdóttir sér um leikmynd, Filippía Elísdóttir um búninga og Björn Bergsteinn um ljósahönnun.

Ekki hægt að keppa við sjálfan sig

Viðbrögðin við Úlfinum komu Unni svo gríðarlega á óvart. „Ég var sannfærð um að sýningarnar yrðu í mesta lagi sex en þetta kennir manni það að maður veit aldrei neitt. Í huganum hljómaði einleikur sem tók á geðrænum áskorunum sem frekar þungt efni sem frekar fáir myndu kaupa sig inn á en annað kom á daginn.“ 

Finnið þið fyrir pressu að toppa ykkur?

„Það er algjör bilun að ætla sér að toppa þann árangur sem Vertu Úlfur hlaut á íslensku leiksviði og það er ekki markmiðið. Þetta er allt annað verkefni. Aðrar forsendur og svo getur maður aldrei keppt við sjálfan sig því þá er maður líka farin að gera hluti á skrítnum forsendum. Ef markmiðið snýr að vinsældum eða viðbrögðum annarra er maður á villigötum held ég. Eldurinn innra með okkur er eini ásinn sem við getum treyst á, þörfin fyrir að segja söguna.“

Ekkert auðvelt í þessu lífi

Foreldra Unnar þarf ekki að kynna en hún segir það að hafa alist upp sem kúltúrbarn hafi mótað hana ríkulega.

„Pabbi er svo mikill ástríðu leikhúsmaður að hann mætir á allar sýningar. Ekki bara sem tengjast mér heldur bókstaflega allar sýningar bæjarins, jafnvel oft. Ég þekki engan sem er eins mikill ástríðumaður um leikhús og pabba. Mamma er ekkert mikið skárri þegar kemur að eldmóði. Að alast upp við slíka ástríðu hefur auðvitað áhrif á mann. 

Margir halda að það hafi verið miði fyrir mig inn í leiklistarnám að eiga þau sem foreldra en svo var ekki raunin. Ég hafði mikið fyrir því að komast inn í skólann og lagði mikið á mig til að sanna verðgildi mitt sem listamanns á eigin forsendum.

Á sama tíma er dýrmætt að eiga þetta bakland sem og stuðninginn. Það var aldrei ýtt á mig að feta þessa braut en mér var ekki heldur hamlað. En ég hafði mikið fyrir því að sanna mig. Það er ekkert auðvelt í þessu lífi.

Auðvitað er það ákveðið forskot að list og menning sé stöðugt í umræðunni innan heimilisins og ég var mjög ung farin að horfa á fullorðins kvikmyndir og það hefur mótandi áhrifi á þroskann. Sem leikari tekurðu allt með þér á sviðið, alla reynslu, allar bækur sem þú hefur lesið, allt sem þú hefur heyrt og séð og þá skiptir auðvitað máli hver grunnur manns er.“

Vökva þau með dómgreind

Njóta börnin þín sama listræna uppeldis og þú gerðir?

„Við eigum fjögur börn og þau eru öll svo ólík að ég veit satt best að segja ekki hvort nokkurt þeirra muni enda í leiklist. Það er mögulega einn kandídat þarna. Sá er mikil tilfinningavera, viðkvæmur, næmur og ástríðufullur. En svo var elsti sonur okkar að hefja viðskiptanám við Verslunarskóla Íslands, Íslandsmeistari í fjármálalæsi og guð veit hvað. Við foreldrarnir skiljum ekkert í því hvaðan hann kemur,“ segir Unnur og hlær.

„Maður lærir svo margt af því eiga svona mörg börn því þau eru svo ólík. Það er hreint út sagt magnað að fylgjast með því. Vissulega vökvar maður þau með dómgreind og vonandi góðum gildum en að öðru leyti eru þetta sjálfstæðir einstaklingar sem eru í grunninn með ólíkan persónuleika sem munu finna sjálf sinn farveg.“

Það á engin bara auðvelt og hressandi líf

Meðan á spjallinu stendur drekkum við Unnur mikið kaffi en þess á milli býður hún upp á engiferskot sem hún segir vera allra meina bót, sérstaklega þegar maður þurfi á extra orku að halda. Spurð hvernig það sé að ala upp fjögur börn og starfa með eiginmanni sínum segist Unnur ímynda sér það ekkert erfiðara en hvað annað. 

„Það er sennilega meiri áskorun að vera einstæð móðir. 

Líf allra er áskorun. Þjáning og gleði bland. Það á enginn bara auðvelt og hressandi líf. Öll erum við að takast á við eitthvað. 

Ég finn að orkan mín er ekki eins mikil og þegar maður var unglamb og maður er aðeins farin að missa boltana hvort sem það snýr að litadögum í leikskólanum eða sundtösku í skólann. Það eru allir undir álagi í nútímasamfélagi og mitt helsta ráð er að forgangsraða og sýna sjálfum sér mildi. Við erum öll að reyna að standa okkur sem manneskjur.“

Unnur Ösp segir sitt helsta markmið að forgangsraða og sýna sjálfri sér mildi.Vilhelm/Vísir

Ár hlaðið áskorunum

Síðastliðið leikár reyndist Unni krefjandi en þar var hún leikstjóri söngleiksins Sem á himni. Verkið var gagnrýnt harkalega sökum þess að leikari var settur í hlutverk fatlaðrar persónu og tók Unnur sem leikstjóri verksins, umræðunni mjög nærri sér. Ekki síst þar sem málefnið stendur henni nærri.

„Þetta ár var hlaðið áskorunum. 

Ég varð fyrir barðinu á umræðu sem fyrir mig persónulega reyndist mjög erfið því ég sit beggja megin borðsins í þessum málaflokki fatlaðra, verandi foreldri fatlaðs barns. 

Fyrir mér var þetta mjög persónulegt hvernig við unnum þessa sögu í sýningunni og hvað við vildum segja með henni. Ég hef sennilega aldrei fjallað um málefni sem skiptir mig jafn miklu máli í leikhúsinu. Svo snýst sú barátta mín yfir í það að við séum að níðast á fötluðum. 

Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og var mikið áfall sem ég þurfti að leita mér aðstoðar við að vinna úr. Snertir viðkvæman streng í móðurhjartanu, eðlilega. Mér fannst ég hafa brugðist dóttur minni. Það er sennilega ekkert erfiðara en að upplifa það að maður bregðist börnunum sínum. 

En svo átta ég mig auðvitað á því að þetta var þörf umræða og tímapunkturinn var þarna til að taka slaginn. Birtingamyndir fatlaðra í menningu og samfélaginu almennt breyttust í kjölfarið. Nú sjáum við fatlaða alls staðar, í öllum auglýsingum og á öllum sviðum leikhúsanna í vetur. 

Þó svo að umræðan hafi verið rætin og gróf á tímabili átta ég mig á því að þetta er mannréttindabarátta og snýst ekki um eina leiksýningu heldur sársauka og réttindi fólks. Á því hef ég fullan skilning á. En ég mun aldrei reyna að sýnast keik varðandi þetta mál, þessi reynsla var mér mjög erfið. 

Mér finnst mikilvægt að við berum virðingu fyrir baráttu hvers annars í allri umræðu. Við getum verið svo grimm og pólaríseringin er skelfileg og kemur okkur nákvæmlega ekkert. Við verðum að hlusta meira og æpa minna á hvert annað.“

Unnur hefur notið gríðarlegra vinsælda í starfi bæði á sviði sem og í leikstjórnarstólnum. Þjóðleikhúsið

Tengir þú persónulega við persónuna sem þú leikur í Saknaðarilmi?

„Alveg ótrúlega mikið,“ segir Unnur með áherslu. „Ég finn gríðarlega þörf að leyfa þessari sögu að fara í gegnum mitt tilfinningalíf því ég tengdi við svo margt. Það er í raun algjör grunvöllur fyrir leikara að skilja persónu. Ekki endilega búa yfir sömu reynslu en skilja hana. 

Mér finnst magnað að varpa ljósi á áfallasögu kvenna, hvernig við getum viðhaldið áfallahring kynslóðanna ef við horfumst ekki í augu við sársaukann. 

Ég hef átt samtal við vísindafólk sem er að rannsaka þessi mál og það er algjör vakning í umræðu um afleiðingar áfalla. Í verkinu fjöllum við mikið um það hvernig við getum reynt að rjúfa þennan áfallahring.

Allt í okkar lífi er nátengt tengslum okkar í barnæsku, öll okkar neysla, hvernig við deyfum sársauka. Það sprettur úr erfiðri reynslu og persóna verksins nýtir sér það bjargráð að drekka og dópa til að deyfa sig. 

Mér finnst ögrandi að spyrja samfélagið hvaðan fíknisjúkdómar og geðraskanir spretta.“

Alltaf að þenja mörk

Óhætt er að segja að Unnur ráðist sjaldnast á garðinn þar sem hann er lægstur enda tekur hún nær undantekningarlaust að sér karaktera sem krefjast mikils. Spurð hvort hún sé alltaf í stuði að mæta í vinnuna segist hún einfaldlega hafa svo mikla ástríðu fyrir starfinu sínu.

„Auðvitað er þetta ákveðin bilun og eflaust einhvers konar sjálfseyðingarhvöt en vinnan er ástríða mín. Þá er maður tilbúin að fórna sér meira en ég er líka þakklát fyrir léttlyndi mitt og skynsemi því maður verður að halda ákveðnu jarðsambandi í þessu starfi. Við erum alltaf að þenja mörk allan daginn og það krefur okkur um að passa upp á okkar eigin mörk. 

Það tekur á að hleypa flóknum persónum í gegnum tilfinningalíf sitt kvöld eftir kvöld. Ég tala ekki um þegar maður er með stórt heimili. Í dag tek ég færri en stærri verkefni að mér.“

Verbúð 2 í vinnslu

Næsta haust hefjast tökur á Verbúð 2 en þar kemur Unnur að handritagerð. Hún segir verkefnið yfirgripsmikið og viðurkennir að þar leynist mikil pressa eftir velgengni fyrri þáttaseríunnar. Hún má þó ekkert gefa uppi um atburðarás eða sögusvið þáttanna.

Hluti leikhópsins sem kom að fyrstu þáttaröð Verbúðar. aðsend

„Það var svo gaman að finna þjóðina lyftast upp með seríunni. Þarna voru allir svolítið litlir í sér í heimsfaraldri, allt lokað en við gátum hlegið og upplifað nostalgíu í gegnum músíkina og stemninguna. Á sama tíma var þetta pólitískt mikilvæg saga. Ég klíp mig oft í handlegginn yfir því hvað ég er lánsöm að vinna við það sem ég elska og hafa um leið áhrif á samfélagsumræðuna.“

Upp á líf og dauða

Spurð hvort sú hugsun flögri aldrei að Unni að hún sé nú búin að toppa sig segir hún hlæjandi að allt listafólk efist stöðugt.

„Ég man að Edda Heiðrún Backman heitin sagði einhvern tímann að henni fyndist hún alltaf hafa misst alla hæfileikana sína á milli verkefna. Svoleiðis er að vera listamaður, stöðugur efi um eigin getu, ólíkt því sem kannski margir halda. Þú ert í raun alltaf að enduruppgötva þig og læra. Ég trúi á máttinn í berskjölduninni og vinn alltaf út frá því. Maður er í raun aldrei sterkari manneskja en þegar maður þorir að berskjalda sig og viðurkenna vanmátt sinn. 

Eftir því sem ég eldist nenni ég minna yfirborðstali. Helst vil ég alltaf vera á dýpinu og tala um það sem skiptir máli, þora að vita ekki neitt, hlusta og læra. Þar vil ég vera sem listamaður, þetta verður að vera upp á líf og dauða.“

Tengdar fréttir

Fjöl­breytt leik­ár í Þjóð­­leik­húsinu og ný byltingar­­kennd á­­skriftar­­leið

Þjóðleikhúsið hefur bætt við nýrri áskriftarleið í anda Spotify fyrir 15 til 25 ára sem veitir ótakmarkaðan aðgang að öllum sýningum leikhússins fyrir aðeins 1450 krónur á mánuði. Nýtt leikár rennur nú af stað, stútfullt af mögnuðum sögum, átökum, klassík, gleði og gamansýningum. Sýningar Þjóðleikhússins sópuðu að sér öllum helstu verðlaununum á Grímunni og öðrum verðlaunahátíðum í vor.

Unnur Ösp leikstýrir söngleik í Þjóðleikhúsinu

Unnur Ösp leikstýrir glænýjum söngleik, Sem á himni, þar sem hópur 25 leikara og tólf manna hljómsveit mun flytja fagra tónlist. Kvikmyndin sem söngleikurinn er byggður á var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin árið 2004.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.