Fótbolti

Fyrsta sinn sem allar Norður­landa­þjóðir eiga lið í riðlakeppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Karl Einarsson skoraði markið sem gulltryggði Blikum sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Viktor Karl Einarsson skoraði markið sem gulltryggði Blikum sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Vísir/Hulda Margrét

Í fyrsta skipti í sögunni eiga allar Norðurlandaþjóðirnar Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Færeyjar öll knattspyrnulið sem munu keppa í riðlakeppni Evrópukeppna. Þetta varð ljóst í gær þegar Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Breiðablik skráði sig á spjöld sögunnar þegar liðið lagði Struga frá Norður-Makedóníu á Kópavogsvelli í gærkvöld. Ekki nóg með að liðið varð fyrsta íslenska karlaliðið til að komast alla leið í riðlana í Evrópukeppni heldur varð Ísland þar með síðasta Norðurlandaþjóðin sem átti eftir tryggja sér slíkan heiður þar sem KÍ Klaksvík frá Færeyjum var með öruggt sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar eftir magnaðar undanfarnar vikur.

Alls eru átta lið frá Norðurlöndum sem munu spila í Evrópukeppnum á næstu vikum. Frá Danmörku munu Orri Steinn Óskarsson og félagar í FC Kaupmannahöfn taka þátt í Meistaradeild Evrópu á meðan Nordsjælland mun taka þátt í Evrópudeildinni.

Valgeir Lunddal Friðriksson og liðsfélagar hans í BK Häcken frá Svíþjóð munu taka þátt í Evrópudeildinni. Molde frá Noregi mun að sama skapi spila í Evrópudeildinni en Bodö/Glimt mun spila í Sambandsdeildinni ásamt HJK Helsinki, Kí Klaksvík og Breiðabliki.

Dregið verður í riðlakeppni Evrópudeildarinnar klukkan 11.00 og verður drátturinn í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport og á Vísi. Dregið verður í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar klukkan 12.30 og verður það sömuleiðis í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Vísi.


Tengdar fréttir

Ljóðrænn Óskar Hrafn eftir afrek Breiða­bliks: „Þessi árangur er óður til hug­rekkisins“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari ríkjandi Íslandsmeistara Breiðabliks, fór yfir víðan völl þegar hann ræddi við Stöð 2 Sport eftir að lið hans tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu. Með sigrinum skráði Breiðablik sig á spjöld sögunnar en ekkert íslenskt karlalið hefur áður komist á þetta stig Evrópukeppni.

Árni pítsu­sali sem tryggt hefur KÍ hundruð milljóna

Stærsta hetjan í mögnuðu Evrópuævintýri færeysku meistaranna í KÍ frá Klaksvík er án vafa 31 árs gamli „pítsusalinn“ Árni Frederiksberg. Þökk sé honum er enn mögulegt að KÍ spili með Real Madrid, Manchester City, Bayern München og öðrum bestu liðum álfunnar í Meistaradeild Evrópu í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×