Innlent

Ekkert mál að græja hjóla­stóla­pall fyrir næstu Þjóð­há­tíð

Árni Sæberg skrifar
Jónas Guðbjörn vill ólmur verða við óskum Dags Steins, sem er til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum Gabríel Mána og Fannari Guðna.
Jónas Guðbjörn vill ólmur verða við óskum Dags Steins, sem er til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum Gabríel Mána og Fannari Guðna. Vísir

Formaður Þjóðhátíðarnefndar tekur vel í hugmyndir manns, sem mætti í hjólastól í Herjólfsdal um helgina, og heitir því að bæta aðgengi fyrir næstu hátíð. 

Dagur Steinn Elfu Ómarsson skoraði á dögunum á forsvarsmenn Þjóðhátíðar að bæta aðstöðu fyrir þá sem mæta á hátíðina í hjólastól. Dagur og tveir starfsmenn hans gáfust upp á troðningnum í dalnum og fóru heim fyrir síðasta kvöldið.

Í samtali við fréttastofu segir Dagur að þegar mesta stemningin hafi verið í dalnum hafi það reynst erfitt að halda sér frá troðningi.

Hann hafi þurft að fá fólk til þess að skýla sér og að erfitt hafi verið að skemmta sér þegar setja þurfti öryggið í fyrsta sæti.

Hann skoraði því á Eyjamenn að hafa aðstöðuna í lagi á næsta ári og nefndi til dæmis hjólastólapall við hljóðmannabúrið aftast á dansgólfinu við aðalsviðið.

Búinn að heyra í Degi

Jónasi Guðbirni Jónssyni, formanni Þjóðhátíðarnefndar, líst vel á hugmyndir Dags.

„Við þiggjum allar góða ábendingar um allt sem tengist Þjóðhátíð og fögnum því að allir fái að vera með. Það hafa alltaf verið hjólastólar í dalnum en að græja svona séraðstöðu fyrir þá er bara ekkert mál,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Þá segir hann að verkefnið verði unnið í samstarfi við þá sem það skiptir máli.

„Ég er allavega búinn að senda honum skilaboð honum Degi, sem kom með þessa ábendingu, og fá símanúmer hjá honum. Mig langar að heyra í honum og gera þetta í samráði við hann.

Allir velkomnir að ári

Að lokum segir Jónas Guðbjörn að Þjóðhátíð í ár hafi að öðru leyti gengið með eindæmum vel og að hann hlakki til að sjá sem flesta að ári.

„Við viljum fá alla á þjóðhátíð, það eru allir velkomnir á Þjóðhátíð.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×