Sport

Belgískur kúluvarpari hljóp í skarðið í grindahlaupi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þrátt fyrir að vera langt á eftir hinum keppendunum virtist Jolien Boumkwo skemmta sér ágætlega í grindahlaupinu.
Þrátt fyrir að vera langt á eftir hinum keppendunum virtist Jolien Boumkwo skemmta sér ágætlega í grindahlaupinu. Nikola Krstic/MB Media/Getty Images

Belgíski kúluvarparinn Jolien Boumkwo vakti verðskuldaða athygli á Evrópubikarnum í frjálsum íþróttum þegar hún hljóp í skarðið fyrir liðsfélaga sína í grindahlaupi.

Belgíska frjálsíþróttasveitin var í harðri fallbaráttu í A-deild, en á mótinu er keppt í liðakeppni þar sem hver keppandi safnar stigum fyrir sína þjóð. Belgar voru með tvo grindahlaupara skráða til leiks, en báðir þurftu frá að hverfa vegna meiðsla.

Boumkwo er með bakgrunn úr grindahlaupi frá sínum yngri árum og því var ákveðið að hún skyldi keppa fyrir hönd belgísku þjóðarinnar og tryggja liðinu þar með um leið tvö stig í fallbaráttunni frekar en ekkert.

Það var þó nokkuð ljóst að Boumkwo, sem hafnaði sjöunda í kúluvarpi, var ekki að fara að ógna neinum metum í grindahlaupinu. Hún kom í mark á 32,81 sekúndum, um 19 sekúndum á eftir hinni spænsku Teresa Errandonea sem kom fyrst í mark.

Belgar þáðu þó stigin tvö með þökkum. Þau dugðu þó að lokum ekki og Belgía féll úr A-deild með nokurra stiga mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×