Sport

Ferrari batt enda á fimm ára sigurgöngu Toyota í Le Mans

Siggeir Ævarsson skrifar
Ökumenn Ferrari fagna fyrsta sigri liðsins í Le Mans síðan á 7. áratugnum
Ökumenn Ferrari fagna fyrsta sigri liðsins í Le Mans síðan á 7. áratugnum

Hin goðasagnakennda 24 klukkustunda þolaksturskeppni í Le Mans í Frakkland fór fram um helgina og var það lið Ferrari sem fór með sigur af hólmi. Var þetta fyrsti sigur Ferrari í keppninni síðan 1965.

Með sigrinum velti Ferrari liði Toyota af stalli, en Toyota hefur unnið keppnina undanfarin fimm ár. Þetta var jafnframt tíundi sigur Ferrari frá upphafi en keppnin fagnar 100 ára afmæli í ár. Fyrsta keppnin var haldin árið 1923 en fjöldi móta er þó ekki 100 þar sem keppnin lá niðri í tíu ár í kringum seinni heimsstyrjöld.

Lið Ferrari skipuðu þeir Antonio Giovinazzi, Alessandro Per Guidi og James Calado. Alls keyrðu þeir 342 hringi og lögðu að baki rúma 4.660 kílómetra. Til samanburðar er hringvegurinn 1.322 kílómetrar.

Ferrari hefur löngum verið einn af risunum í akstursíþróttaheiminum, en þessi tíundi Le Mans titill þeirra gerir liðið þó einungis að þriðja sigursælasta liði keppninnar. Á toppnum trónir Porsche með 19 sigra, en liðið vann þrjú ár í röð 2015-17 og næst á eftir kemur Audi með 13 sigra. Audi hefur að mestu einokað keppnina frá aldamótum, en fyrsti sigur liðsins kom í hús árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×