Pablo Punyed kom Víkingi yfir gegn Keflavík og staðan var 1-0 fram á 57. mínútu þegar Erlingur Agnarsson skoraði, og Gunnlaugur Fannar Guðmundsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Þá skoraði hins vegar Marley Blair fyrir Keflavík og þrátt fyrir að skotið væri ekki frábært þá varð hann fyrstur til að finna leiðina framhjá Ingvari Jónssyni þetta sumarið. Danijel Dejan Djuric innsiglaði hins vegar sigur Víkings í kjölfarið.
Breiðablik skoraði sín mörk gegn Stjörnunni á fyrstu tíu mínútunum, og hélt svo marki sínu hreinu í annað sinn á tímabilinu.
Í fyrra markinu sóttu Höskuldur Gunnlaugsson og Patrik Johannesen fram vinstri kantinn og komu boltanum svo út á Gísla Eyjólfsson sem lék laglega á Jóhann Árna Gunnarsson og skoraði með skoti utan teigs.
Stefán Ingi Sigurðarson hélt svo áfram að raða inn mörkum fyrir Blika en hann skallaði fasta og góða fyrirgjöf Jasonar Daða Svanþórssonar í netið af stuttu færi og er markahæstur í deildinni með sex mörk.
Á miðvikudagskvöld fóru fram fjórir leikir og má sjá mörk og helstu atvik úr leikjunum hér að neðan. KA vann 4-2 sigur gegn FH, Fram fagnaði sínum fyrsta sigri þegar liðið vann ÍBV 3-1, HK lagði KR að velli 1-0 í fyrsta heimaleik KR-inga, sem leikinn var á Seltjarnarnesi, og Valsmenn völtuðu hreinlega yfir Fylki í Árbæ, 6-1.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.