Lífið

Einstaklega gæf ugla heilsaði upp á leikskólabörn í Ólafsfirði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Uglan settist mjög nálægt glugganum og virti fyrir sér leikskólabörnin.
Uglan settist mjög nálægt glugganum og virti fyrir sér leikskólabörnin. Páll Helgi Baldvinsson

„Hún var ekkert hrædd við börnin“ segir leikskólastjóri í Fjallabyggð um uglu sem heimsótti leikskólabörn í gær. Uglan sat í dágóðan tíma nær upp við glugga skólans og virti börnin fyrir sér.

Sést hefur til uglunnar á Ólafsfirði síðustu daga en í gær kom hún sér vel fyrir á lóð Leikskóla Fjallabyggðar og sat þar steinsnar frá glugga hússins. 

Leikskólastjórinn Olga Gísladóttir, segir í samtali við fréttastofu að uglan hafi setið þar heillengi og horft með aðdáun á börnin inn um gluggann. 

„Hún var ekkert hrædd við börnin, við gátum alveg stungið símunum okkar út um gluggann og hún sat fyrir þegar við smelltum myndum af henni.“

Uglan virtist hrifin af börnunum á leikskólanum á Ólafsfirði.AÐSEND

Uglan hafi þannig verið mjög gæf og litist vel á börnin í Ólafsfirði. Börnin hafi sömuleiðis verið mjög hrifin af uglunni.

„Já uglunni leist mjög vel á leikskólabörnin. Við höfðum reyndar smá áhyggjur af henni þar sem hún sat svo lengi fyrir utan gluggann og héldum að eitthvað væri að henni.“

Þær áhyggjur voru óþarfar þar sem uglan flaug af lóðinni eftir um hálftíma, líklega komin með nóg af félagsskapnum.

Jakob Agnarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×