Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við borgarstjóra og safnstjóra Kjarvalsstaða í beinni útsendingu. Tilefnið var að fimmtíu ára opnunarafmæli Kjarvalsstaða, en húsið er það fyrsta á Íslandi sem er sérstaklega hannað og byggt til að hýsa myndlistarsýningar.
„Ég held alltaf svolítið upp á þessa sögu, af því Kjarval var það sem í daglegu tali er kallað snillingur, en líka býsna sérvitur. Hann treysti því ekki alveg að þetta myndi ganga vel fyrir sig þannig að hann kom með sína eigin skóflu og sagan segir að hann hafi tekið moldina með sér,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og bætti við að bæði skóflan og moldin væru á meðal þess sem hægt er að sjá á sérstakri afmælissýningu á Kjarvalsstöðum um helgina.
Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir að um 200 verk, sem eiga að endurspegla 20. öldina, séu á sýningunni. Afmælisboð verður í dag kl. 3 og sýningin stendur fram í ágúst. Þá verður frítt inn á sýninguna um helgina.
Dagur segir að með ákvörðun um að reisa Kjarvalsstaði á Klambratúni hafi verið tekin ákvörðun um að Reykjavík yrði breytt úr bæ í borg. „Þess vegna er ótrúlega gaman að halda upp á þessi tímamót,“ segir Dagur.