Lífið

Tísku­sýning Victoria's Secret snýr aftur

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hin víðfræga tískusýning Victoria's Secret snýr aftur í ár.
Hin víðfræga tískusýning Victoria's Secret snýr aftur í ár. Getty/Jason Nevader

Hin umdeilda tískusýning undirfatarisans Victoria's Secret verður haldin í ár í fyrsta sinn eftir fjögurra ára hlé. Fyrirtækið hefur gengist við því að hafa verið of lengi að bregðast við breyttum heimi. Forstjórinn segir að nú sé kominn tími til að hætta að gera það sem karlmenn vilja og fara að gera það sem konur vilja.

Tilkynnt var á fundi í vikunni að undirfatasýningin yrði haldin í ár, þó í breyttri mynd, þar sem raddir og sjónarhorn kvenna væru nú að leiðarljósi.

Tískusýningin var haldin fyrst árið 1995 og fór hún fram árlega næstu þrettán árin. Á sýningunni komu fram hinir víðfrægu Victoria's Secret englar og sýndu nýjustu línur nærfatarisans. Margar af frægustu ofurfyrirsætum heims hafa tilheyrt hópi englanna, má þar nefna Heidi Klum, Tyru Banks, Gisele Bundchen, Naomi Campbell, Adriana Lima, Alessandra Ambrosio, Miranda Kerr, Gigi Hadid, Kendall Jenner og fjölmargar aðrar.

Margar af þekktustu fyrirsætum heims hafa tilheyrt hópi Victoria's Secret englanna.Getty/Bryan Bedder

Eitt vinsælasta sjónvarpsefni heims þar til áhorfstölur hríðféllu 2018

Þá hefur sýningin ekki síður verið þekkt fyrir að vera sannkölluð tónlistarveisla því margt af vinsælasta tónlistarfólki heims hefur spilað á tískupallinum á meðan fyrirsæturnar ganga. Listinn er endalaus en á honum er að finna nöfn á borð við Harry Styles, Justin Bieber, The Weeknd, Lady Gaga, Bruno Mars, Selenu Gomez, Ed Sheeran, Ariönu Grande, Rihönnu, Kanye West, Katy Perry, Spice Girls, Justin Timberlake og Destiny's Child svo fátt eitt sé nefnt.

Sýningin naut mikilla vinsælda og var hún einn stærsti sjónvarpsviðburðurinn á ári hverju. Í seinni tíð var nærfatarisinn þó harðlega gagnrýndur vegna þess hve lítil fjölbreytni væri í fyrirsætuhópi hans. Árið 2018 lét talsmaður fyrirtækisins falla umdeild orð í garð trans fólks. Í kjölfarið hríðféllu áhorfstölur og var áhorf það árið það versta í sögu sýningarinnar.

Árið 2019 var svo tilkynnt að sýningin færi ekki fram það árið. Shanina Shaik, ein af Victoria's Secret englunum, sagði ástæðuna líklega vera þá að verið væri að vinna að því að breyta bæði gerð og markaðssetningu sýningarinnar. Sýningin hefur ekki verið haldin síðan.

Áhorf á sýninguna hefur aldrei verið minna en árið 2018.Getty/Taylor Hill

„Við þurftum að hætta að gera það sem karlmenn vilja“

Árið 2019 tók nærfatarisinn mikilvægt skref þegar trans fyrirsætan Valentia Sampaio var fengin til að sitja fyrir í auglýsingaherferð fyrirtækisins.

Árið 2021 var svo ákveðið að hvíla englana í nýrri auglýsingaherferð og fá í staðinn konur sem frægar eru fyrir afrek sín, en ekki líkama, til þess að sitja fyrir. Þar á meðal voru Megan Rapinoe, 35 ára gömul, bleikhærð fótboltakona sem barist hefur fyrir jafnrétti í fótboltabransanum, hin 17 ára gamla Eileen Gu, verðandi ólympíufari í skíðum og hin 29 ára gamla fyrirsæta Paloma Elsesser, sem hefur unnið sér það til frægðar að hafa verið fyrsta konan sem notar bandarísku fatastærðina 14 sem hefur fengið að sitja á forsíðu tískublaðsins Vogue.

„Þegar heimurinn var að breytast vorum við of hæg að bregðast við þeim breytingum,“ sagði Martin Waters, forstjóri Victorias Secret, í tengslum við herferðina. „Við þurftum að hætta að gera það sem karlmenn vilja og fara að gera það sem konur vilja.“

Það er því spennandi að sjá hvers konar tískusýningu Victoria's Secret mun bjóða upp á í ár. 


Tengdar fréttir

Skipta englunum út fyrir „það sem konur vilja“

Undirfataframleiðandinn Victoria‘s Secret hefur skipt út hinum víðfrægu englum fyrir konur sem eru frægar fyrir afrek sín, ekki líkama. Ný auglýsingaherferð framleiðandans hefur vakið athygli enda konur af öllum stærðum og gerðum í henni en áður hefur leyndarmál Viktoríu haldið sig við þvengmjóar ofurfyrirsætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×