Innlent

Drífa ný talskona Stígamóta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Drífa Snædal er komin til starfa hjá Stígamótum.
Drífa Snædal er komin til starfa hjá Stígamótum. Vísir/Ragnar

Drífa Snædal hefur verið ráðin talskona Stígamóta og tekur við starfinu þann 1. mars af Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur sem hefur ráðið sig til almannatengslafyrirtækisins Aton JL. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stígamótum.

Í starfinu felst að taka þátt í stefnumótun og hafa umsjón með pólitísku starfi Stígamóta, miðla upplýsingum til fjölmiðla, fjármál, fjáröflun, samráð við stjórnvöld og þátttaka í fræðslu- og forvarnarverkefnum.

Drífa hefur fjölbreytta reynslu úr félagasamtökum, þar með talið að stýra Samtökum um kvennaathvarf á sínum tíma. Hún hefur beitt sér í jafnréttismálum, gegn mansali og kynbundinni- og kynferðislegri áreitni. Síðustu ár var hún forseti ASÍ. Drífa hefur haldið fjölda fyrirlestra, skrifað greinar, tekið þátt í stefnumótun og gefið út fræðsluefni um mansalsmál, áreitni og ofbeldi og misrétti kynjanna.

Starfshópur Stígamóta býður Drífu velkomna til starfa og hlakkar til samstarfsins.

„Ég hlakka mikið til að starfa með og fyrir Stígamót en þau samtök hafa haft afgerandi áhrif á samfélagsumræðuna síðustu áratugi og veitt þúsundum brotaþola aðstoð vegna afleiðinga ofbeldis. Stígamót eru hreyfiafl sem eiga fáa sinn líka og ég er tilbúin til að demba mér í baráttuna með því góða fólki sem kemur að starfinu,“ segir Drífa.

Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi.


Tengdar fréttir

Steinunn frá Stígamótum til Aton JL

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hefur senn störf sem ráðgjafi hjá samskiptafyrirtækinu Aton JL. Hún hefur um árabil verið talskona Stígamóta, sem leita nú nýrrar talskonu. Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×